136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:36]
Horfa

samgönguráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Já, samgönguráðherra telur vel koma til greina að endurnýja samning um siglingar yfir Breiðafjörð og er í því sambandi vísað í viljayfirlýsingu Vegagerðarinnar sem ég undirritaði sjálfur, dags. 24. febrúar 2009, um að samningur við Sæferðir ehf. um styrki til ferjusiglinga á Breiðafirði verði framlengdur til loka maí 2011.

Endurnýjun samnings um þennan tíma byggist á því að ekki verður unnt að tryggja umferð þungra bíla á Vestfjarðavegi í Barðastrandarsýslu allt árið um kring vegna takmarkana á öxulþunga fyrr en framkvæmdum er lokið á veginum um Þorskafjörð, Djúpafjörð og Gufufjörð annars vegar og frá Kjálkafirði til Vatnsfjarðar hins vegar. Síðarnefndu framkvæmdirnar hafa þegar verið boðnar út en óvissa er enn um framkvæmdir í Þorskafirði vegna málaferla um vegagerð í Teigsskógi.

Að loknum þessum framkvæmdum verður að gera ráð fyrir að ekki verði frekari styrkir til ferjusiglinga yfir Breiðafjörð. Þess má geta, virðulegi forseti, að á árinu 2008 fór Baldur 348 ferðir milli Stykkishólms og Brjánslækjar og flutti tæpa 50.000 farþega. Skipið flutti 11.868 fólksbíla og 851 flutningabíl.

Ég vil ítreka það sem ég hef hér sagt í þessu svari, virðulegi forseti, að þær samgöngur sem Sæferðir hafa innt af hendi um ferjusiglingar á Breiðafirði eru mikilvægar fyrir byggð á sunnanverðum Vestfjörðum og meðan okkur gengur ekki betur og við getum ekki klárað þessar umræddu vegaframkvæmdir þurfum við að halda uppi ríkisstyrktum ferjusiglingum á þessu svæði.