136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:43]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Við getum verið sammála um góð orð í þessum efnum, en framkvæmdirnar hafa ekki gengið eftir með sama hætti. Ferjusiglingar Baldurs eru ein af lífæðum samgangna milli landshluta, milli Vestfjarða yfir Breiðafjörð, Snæfellsnes og aðra landshluta.

Ég nefni skólamálin. Það var mikið framfaraspor þegar hægt var að stofna framhaldsskóladeild aftur á sunnanverðum Vestfjörðum í tengslum við framhaldsskólanám á Snæfellsnesi, í Grundarfirði. Það samstarf er háð því að þessar samgöngur gangi upp og séu í lagi.

Sama á við um ferðaþjónustuna og flutning á fiski eins og hér hefur verið sagt. Ég spyr ráðherra: Hvers vegna er þá ekki gengið þegar í stað til samninga um ferjusiglingarnar úr því að hann er búinn að gefa skipun um það? Við höfum rætt þetta oft, þetta er þriðja, fjórða eða fimmta skiptið á Alþingi, og ekkert gerist. (Forseti hringir.)

Einnig er allt of skammt að þetta sé bara til 2011. Það er framtíðarþörf sem við eigum að horfa til.