136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

samningur um siglingar yfir Breiðafjörð.

387. mál
[15:44]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Herdís Þórðardóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. samgönguráðherra fyrir svör hans. Það var ánægjulegt að fá þær fréttir að þessi viljayfirlýsing skuli hafa verið undirrituð en eins og aðrir sem hafa hér tekið til máls segja er þetta náttúrlega til 2011 og tímasetningin til loka maí, þegar sumarvertíðin er að hefjast, er náttúrlega ekki góð ef við horfum á það.

Hæstv. forseti. Ég tók þetta mál hér upp út af þeim málum sem við íslenska þjóðin erum stödd í í dag í þessari efnahagskreppu. Hvað eigum við að gera til að forgangsraða hlutunum? Við búum hér við erfiðar aðstæður eins og íbúar á sunnan- og norðanverðum Vestfjörðum hafa þurft að búa við, slæma vegi ár eftir ár. Ég man í kosningabaráttunni 2007 þegar ég fór sunnanverða Vestfirði hafði ég farið þessa leið 10 árum áður og ekki var þá orðin mikil bragarbót á vegunum frá því fyrir 10 árum.

Ég tel jafnframt mjög brýnt að ríkisvaldið styðji við ferjusiglingar eins og málum er komið í dag og komi þannig til móts við ferðaþjónustu og atvinnufyrirtæki á þessu svæði. Ég veit að það er heimild í lögum um stuðning við ferjusiglingar vegna ferðaþjónustu. Þess vegna segi ég að það er ekki þungbært fyrir ríkissjóð að styrkja og standa við bakið á ferjusiglingum. Ég hvet hæstv. samgönguráðherra til þess að Vegagerðin gangi (Forseti hringir.) nú þegar til samninga við þessa aðila og það verði (Forseti hringir.) gert til lengri tíma.