136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[15:49]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. 17. mars árið 2007 var samþykkt á Alþingi þingsályktun þar sem hæstv. þáverandi heilbrigðisráðherra var falið að hefja undirbúning að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi og skyldi leitin hefjast á árinu 2008. Þessi samþykkt þingsins átti sér nokkurn aðdraganda. 1. flutningsmaður var Drífa Hjartardóttir, fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins á Suðurlandi, en frá árinu 2000 hafði þingmaðurinn Árni Ragnar Árnason heitinn lagt þessu máli lið og flutti hann m.a. ásamt 17 öðrum þingmönnum úr öllum flokkum þingsályktunartillögu sem var samþykkt á árinu 2002 um að gerðar skyldu tillögur um hvernig staðið skyldi að forvörnum og leitarstarfi að krabbameini.

Þegar ákveðið var á Alþingi að hefja þessa leit á árinu 2008 var byggt á skýrslu landlæknisembættis og var þá miðað við að hefja skyldi leit hjá 50 ára og eldri, bæði körlum og konum og á tveggja ára fresti. Ég spurðist sérstaklega fyrir um það hér á síðasta ári, 6. febrúar 2008, hvað þessu máli liði, þ.e. undirbúningi að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Ég fékk þau svör frá hæstv. þáverandi ráðherra að ekki væri fyrirhugað að hefja þessa skimun fyrr en í ársbyrjun á þessu ári sem nú er nýbyrjað, á árinu 2009, og olli það nokkrum vonbrigðum miðað við samþykkt Alþingis sem var eins og ég sagði mjög skýr frá árinu 2007, 17. mars, um að hefja skyldi skimun á árinu 2008. En það var einnig á orðum hæstv. þáverandi ráðherra að skilja að búið væri að þrengja hópinn verulega frá því sem landlæknir hafði mælt með og nú skyldi byrjað á skimun hjá 60–69 ára.

Frú forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um það hversu mikill árangur hefur orðið af hópleit til að mynda að brjóstakrabbameini og hversu mikið er í húfi þegar við erum að ræða um að 134 Íslendingar, karlar og konur, greinast með ristil- og endaþarmskrabbamein á ári hverju en það leggur árlega 55 einstaklinga að velli. Ég hef því spurt hæstv. heilbrigðisráðherra hvað þessu máli líði og hvernig 20 millj. kr. fjárveitingu á síðasta ári var varið í þessu skyni. En ég hef líka spurt hvort fyrirhugað sé að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hjá þeim hópi karla sem boðaður er til leitarinnar því að blöðruhálskirtilskrabbamein leggur mun fleiri karla að velli en ristilkrabbameinið.