136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[15:52]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að vekja máls á þessu mikilvæga máli og beina spurningum til mín.

Hv. þingmaður spyr fyrst hvað líði undirbúningi að skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi sem hefjast átti í ársbyrjun 2009 og vísar m.a. til ályktunar Alþingis frá 17. mars 2007. Þess má geta að sá sem hér talar átti aðild að þeirri þingsályktunartillögu en samkvæmt henni var gert ráð fyrir því að þessi skimun hæfist 1. júlí það ár en síðan kom síðari dagsetningin til sögunnar sem hv. þingmaður vísar til.

Hér er um að ræða umfangsmikla aðgerð sem snertir fjölda fólks en forveri minn í starfi heilbrigðisráðherra skipaði ráðgjafahóp á miðju síðasta ári undir formennsku sóttvarnalæknis til að sinna þessu verkefni. Í ráðgjafahópnum sátu enn fremur helstu talsmenn skimunar fyrir ristilkrabbameini auk heilsuhagfræðings og prófessors í faraldsfræði við Háskóla Íslands, yfirlæknis heilbrigðisráðuneytisins, formanns sóttvarnaráðs og fleiri. Hópurinn skilaði tillögum í nóvember sl. og lagði til að hafin yrði skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini meðal fólks á aldrinum 60–69 ára þar sem því yrði boðið að skila hægðasýnum annað hvert ár og í sýnunum leitað að blóði. Þeim sem reyndust hafa blóð hægðum yrði boðið til ristilspeglunar. Jafnframt var lagt til að sú reynsla sem fengist af þessari skimun yrði lögð til grundvallar á frekari útvíkkun í framtíðinni.

Gert var ráð fyrir að kostnaður af þessari skimun yrði um 60 millj. kr. árlega miðað við verðlag á miðju árinu 2008. Hópurinn veitti einnig ráð um aðrar skimanir og bólusetningar. Alþingi hafði veitt 20 millj. kr. til undirbúnings leitar fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi. Ekki hefur verið greitt fyrir vinnu þessa ráðgjafahóps og er þessi fjárhæð því á safnlið hjá ráðuneytinu þar til ljóst verður að frekari fjárveiting liggi fyrir til að hefja þessa leit. Svo sem kunnugt er hefur engu fé enn þá verið veitt til þessarar skimunar af hálfu Alþingis.

Hv. þingmaður spyr enn fremur hvort fyrirhugað sé að skima fyrir krabbameini í blöðruhálskirtli hjá þeim hópi karla sem boðaðir verða til hópleitar fyrir ristilkrabbameini. Svarið við þessu er neitandi. Engin alþjóðlega samþykkt aðferð er til að mati sérfræðinga heilbrigðisráðuneytisins, og vísa þeir í skýrslur þar að lútandi, sem er nægjanlega nákvæm og markviss til að réttlæta slíka hópleit. Af hálfu ráðuneytisins er vel fylgst með allri umræðu um þennan þátt, þ.e. leit að krabbameini í blöðruhálskirtli karla sem er algengasta krabbamein þeirra. Mikil umræða á sér stað um þetta mál, bæði hérlendis og erlendis. Ágallar þeirra aðferða sem helst koma til greina eru það miklir að mati sérfræðinga ráðuneytisins að hvorki heilbrigðisyfirvöld í nágrannalöndum okkar né Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin mæla með að slík skimun sé hafin.

Þetta eru svör við spurningum hv. þm. Álfheiðar Ingadóttur. Ég tek undir málflutning hennar og áherslur, ég er sammála því að við þurfum að beina sjónum okkar að forvarnastarfi eftir því sem kostur er. Deila má um hvort um slíkt forvarnastarf er að ræða í þeim tillögum sem fram komu hjá sérfræðingahópnum sem vísað er til því þarna er í rauninni um það að ræða að ráðast í rannsókn þegar sjúkdómurinn er farinn að gera vart við sig. Það hafa líka komið fram tillögur frá sérfræðingum eða læknum og þrýstingur í þá veru að einstaklingar á bilinu 50–55 ára fari í speglun. Í báðum tilvikum værum við að tala um gríðarháar upphæðir. En þetta eru sem sagt þau svör sem núna liggja fyrir.