136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[15:57]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir svörin. Ég er ánægður að heyra að hæstv. ráðherra hafi þessar áherslur. Forvarnaáherslur eru afskaplega mikilvægar og eins og hér kom fram unnum við ákveðna vinnu í tengslum við þetta. En sá vinnuhópur sem hæstv. ráðherra vísar til forgangsraðar líka þeim forvarnaaðgerðum sem ráðgjafahópur um bólusetningar og skimun leggur til og mælist til að fyrst verði hafin almenn bólusetning gegn pneumókokkasýkingum meðal barna. Ég get ekki í svo stuttri ræðu farið yfir vinnuna en hvet þingmenn til að kynna sér hana. Það komu ráðleggingar um nokkra þætti, HPV-bóluefni fyrir 12 ára stúlkur, bólusetningar gegn pneumókokkasýkingum, skimun fyrir ristil- og endaþarmskrabbameini og skimun fyrir streptókokkasýkingum. Sem betur fer er ekki búið að nýta þessar 20 milljónir en þær duga hins vegar skammt þegar farið er í þessi verkefni en mikilvægt er að við reynum að vera áfram í fremstu röð hvað þetta varðar.