136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[16:02]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Þeir sem hlusta á þetta hljóta að komast að þeirri niðurstöðu að hv. þingmaður sem talaði hér á undan hafi farið með rétt mál. Því fer víðs fjarri og ég fer fram á að hæstv. ráðherra leiðrétti fullyrðingarnar sem hér hafa komið fram um að ekkert hafi verið gert til að undirbúa þetta mál. Eins og allir vita urðu miklar breytingar á fjárlögum á síðasta ári. Við þurftum að skera niður um hvorki meira né minna en 6.700 millj. og hæstv. ráðherra fór yfir að þrátt fyrir þetta allt saman hafi verið unnin mjög mikil og góð vinna sem nú er grundvöllur þess að menn hafi eitthvað til að byggja á fyrir þessi mikilvægu verkefni.