136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

skimun fyrir krabbameini.

396. mál
[16:03]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla fyrst og fremst að þakka fyrir umræðuna. Mjög mikilvægt er að halda henni á lofti, mikilvægi forvarnastarfs verður aldrei of oft til umræðu í þinginu og vil ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir að vekja máls á þessu.

Ég hef vísað til undirbúningsstarfs sem unnið hefur verið á vegum heilbrigðisráðuneytisins og hér hefur komið fram að nefnd, sem ég vísaði til, hefur reitt fram skýrslu um forvarnaverkefni og hugsanlega forgangsröðun í þeim efnum og ég vil geta þess að ég mun eiga fund með sóttvarnalækni, Haraldi Briem, fyrir vikulokin til að fara yfir þessi mál.

Það er rétt sem fram kemur hjá hv. þm. Álfheiði Ingadóttur, eða liggur í orðum hennar, að erfitt er að jafna saman stöðu mála á síðasta ári og því sem nú er uppi við efnahagsþrengingarnar sem við stöndum nú frammi fyrir og þeim niðurskurði sem við þurfum að sæta. En mjög mikilvægt er að við látum ekki hjá líða að sinna forvarnastarfi, því að þegar allt kemur til alls er mestur sparnaður fólginn í því að sinna slíku starfi vel.