136. löggjafarþing — 108. fundur,  18. mars 2009.

nýtt háskólasjúkrahús.

354. mál
[16:14]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Frú forseti. Ég vil fagna þessari umræðu og þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir að vekja máls á byggingaráformum nýs háskólasjúkrahúss og ég vil að sama skapi fagna svörum hæstv. heilbrigðismálaráðherra um að áfram sé unnið að framkvæmdum og undirbúningi þeirra, sem mörg rök hníga að, eins og hann rakti í máli sínu.

Ég verð að játa að mér brá nokkuð við þegar fréttir bárust af því að byggingarnefnd háskólasjúkrahússins hefði verið lögð niður og það kemur mér í sjálfu sér á óvart að þetta sé komið í hendur á Landspítalanum og Háskóla Íslands, ég hafði ekki heyrt af því.

Auðvitað er nauðsynlegt fyrir okkur að draga saman seglin eins og nú árar. Ég vil minna á að peningarnir fyrir einkavæðingu Símans áttu að borga þessa framkvæmd en þeir hafa, eins og margt annað, trúlega horfið í hítina. (Forseti hringir.) En það skiptir miklu máli að halda áfram undirbúningi þessa verkefnis, ekki síst til að halda uppi atvinnu fyrir verkfræðinga og arkitekta sem eru atvinnulausir í hrönnum.