136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:02]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Um nýliðna helgi var orðið endanlega ljóst að ekki væri stætt að halda rekstri SPRON og Sparisjóðabankans, áður Icebank, áfram. Það var samdóma álit Fjármálaeftirlits og Seðlabanka. Því greip Fjármálaeftirlitið inn í rekstur þessara fyrirtækja. Um leið var gripið til samhæfðra aðgerða til að verja hagsmuni viðskiptavina þessara fyrirtækja og sparisjóðanna allra og tryggja bankaþjónustu um land allt.

Með þessum aðgerðum hafa mikilvæg skref verið stigin til að tryggja áframhaldandi starfsemi sparisjóða á Íslandi. Þeim verður þar með gert kleift að taka virkan þátt í endurreisn hagkerfisins. Munu sparisjóðir gegna lykilhlutverki í þjónustu við einstaklinga og smærri fyrirtæki um land allt. Starfsemi þeirra skiptir höfuðmáli í ýmsum byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins þar sem sparisjóðir hafa verið einir um að veita fjármálaþjónustu.

Staða SPRON hafði verið erfið mjög lengi og til stóð að sameina reksturinn Kaupþingi síðastliðið haust. Staðan versnaði til muna við hrun viðskiptabankanna í október 2008. Hafa SPRON og Sparisjóðabankinn undanfarna mánuði þurft undanþágur vegna mjög slæmrar eiginfjárstöðu og mikla aðstoð vegna lausafjárstöðu. Lausafjárfyrirgreiðsla Seðlabanka var veitt með tveimur skilyrðum: Hið fyrra var að samkomulag næðist við lánardrottna sem mundi leysa eiginfjárvanda fyrirtækjanna með hugsanlegu eiginfjárframlagi frá ríkissjóði. Hið síðara var að fyrirtækin legðu fram fullnægjandi veð þannig að áhætta ríkissjóðs vegna lausafjárfyrirgreiðslu yrði takmörkuð. Það varð sífellt erfiðara. Fyrirtækin áttu í viðræðum við lánardrottna um hugsanlega endurfjármögnun og niðurfellingu skulda en þær skiluðu ekki fullnægjandi niðurstöðu.

Eftir á að hyggja var ef til vill óraunhæft að vonast til að hægt væri að tryggja áframhaldandi rekstur þessara fyrirtækja með slíkum samningum enda vantaði mjög mikið upp á að þau væru rekstrarhæf, m.a. vegna neikvæðs eigin fjár. Lausafjárstaða fyrirtækjanna hélt hins vegar áfram að versna og gerði á endanum ofangreindar ákvarðanir óhjákvæmilegar.

Vegna tæknilegra vandkvæða við flutning innstæðna SPRON til Nýja Kaupþings banka hf. var nauðsynlegt að flytja innstæður aðfaranótt sunnudags til að tryggt væri að viðskiptavinir hefðu aðgang að innstæðum á mánudagsmorgni. Með mikilli og góðri vinnu starfsmanna Fjármálaeftirlitsins, Nýja Kaupþings, tölvumiðstöðva og fleiri aðila tókst að tryggja að þegar að flutningi loknum á sunnudagsmorgun höfðu viðskiptavinir aðgang að innstæðum í heimabanka Nýja Kaupþings og að öll debet- og kreditkort virkuðu. Reyndist því nauðsynlegt að tilkynna um fyrirhugaðan flutning síðdegis á laugardegi, en vegna þessa er rétt að þakka öllum þeim sem unnið hafa nótt og dag undanfarna sólarhringa til að tryggja að þetta gæti gengið eftir án röskunar fyrir viðskiptavini. Ég vil sérstaklega nota þetta tækifæri til að þakka starfsfólki FME sem mikið hefur dunið á undanfarna mánuði en það lagði nótt við dag til að tryggja að þetta gæti gengið eftir og raunar einnig fyrir tveimur vikum þegar svipaðar aðgerðir voru vegna Straums.

Það hefði verið óskandi að hægt hefði verið að tilkynna starfsfólki þessara fyrirtækja um aðgerðina fyrr en það reyndist því miður ekki unnt. Unnið hefur verið með stjórnendum og mannauðsstjórnendum vegna starfsmannamála. Hugur okkar allra hlýtur að vera með starfsfólki sem missir störf vegna þrota SPRON og Sparisjóðabankans eins og raunar öðrum sem nú eru atvinnulausir vegna hremminga undanfarinna mánaða.

Virðulegi forseti. Nú virðist sjá til lands í endurskipulagningu íslenska fjármálakerfisins. Þar þarf að vísu enn að vinna mikið verk og ekki allt skemmtilegt en ekkert af því er óviðráðanlegt. Við sjáum því fram á að það muni takast að endurreisa íslenskt fjármálakerfi með heilbrigðan efnahag. Það verður vel starfhæft og þess megnugt að veita íslensku efnahagslífi öflugan stuðning.

Þótt ekkert hafi bent til þess þegar útlitið var hvað verst síðastliðið haust þá virðumst við Íslendingar jafnvel geta orðið með þeim fyrstu í samfélagi þjóðanna sem ná að endurskipuleggja fjármálakerfi sitt og losa það við þau vandamál sem urðu fyrra fjármálakerfi okkar að falli. Það skiptir lykilmáli til að þróttmikil endurreisn íslensks efnahagslífs geti hafist.