136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:07]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Atburður helgarinnar er auðvitað mikið áfall. Fall stærsta sparisjóðs landsins og sú ákvörðun að setja Sparisjóðabankann í greiðslustöðvun er mikið högg fyrir fjármálakerfið almennt en vitaskuld sparisjóðina sérstaklega. Það er ljóst að vandinn sem fram undan er hjá sparisjóðakerfinu er mikill. Samrekstur á ýmsum þáttum á vegum sparisjóðanna skipti afkomu þeirra miklu og þá alveg sérstaklega minni sjóðanna sem á landsbyggðinni starfa.

Þá er ljóst að umtalsvert eigið fé sparisjóðanna er bundið í Sparisjóðabankanum. Staða hans núna er þess vegna mikið áfall fyrir sparisjóðina og er með öðru þess valdandi að þeir verða nú að sækja um fjárhagslega aðstoð frá ríkinu eins og lög kveða á um.

Frá því að best lét í fjármálageiranum hér á landi fyrir tæpu ári lætur nærri að 30% starfsmanna hafi misst vinnu sína. Fyrir ári störfuðu um 5 þúsund manns í fjármálaþjónustunni en nú hefur þeim fækkað um 1.500. Nærri þriðji hver starfsmaður, hvorki meira né minna, hefur misst vinnuna. Þetta er gríðarlegt áfall og hrein blóðtaka fyrir samfélag okkar en þó auðvitað mesta áfallið fyrir fólkið sjálft og fjölskyldur þess.

Þó að margt misjafnt hafi verið sagt um starfsfólk fjármálafyrirtækja undanfarna mánuði skulum við ekki gleyma því að þar hafði byggst upp mikill mannauður. Ef við skoðum núna sérstaklega þann atvinnumissi sem verður vegna lokunar þess gróna sparisjóðs SPRON þá er ljóst að í þeim hópi eru konur í yfirgnæfandi meiri hluta. Áætla má að um 70% þess fólks sem nú er að missa vinnu sína séu konur, margar hverjar með 20–30 ára starfsaldur. SPRON var góður vinnustaður þar sem margir áttu langan starfsaldur og ýmsir þeirra sem nú sjá fram á atvinnumissi hafa kannski unnið mestalla starfsævi sína í þessu gamalgróna fyrirtæki. Ekki síst í ljósi þess ber mjög að harma hvernig staðið var að málum nú um helgina. Auðvitað átti með öllum ráðum að koma upplýsingum til starfsfólks þessara fjármálastofnana, SPRON og Sparisjóðabankans, með öðrum hætti en gert var. Það er einfaldlega ekki fólki bjóðandi að heyra af örlögum sínum í beinni sjónvarpsútsendingu þegar hægt er að standa öðruvísi að málum. Það vekur líka upp þá óhjákvæmilegu spurningu hvort ekki verði staðið að fullu við kjarasamninga gagnvart því fólki sem mun núna að fá uppsagnarbréf og hvort að þeim málum verði ekki staðið með sambærilegum hætti og hjá því fólki sem missti vinnuna við fall viðskiptabankanna.

Sparisjóðakerfið er ómetanlegur þáttur í fjármálakerfi okkar. Því hefur oft verið spáð dauðdaga, bæði fyrr og síðar. Stórir og öflugir bankar hafa margsinnis reynt að hrammsa sparisjóðina til sín en hafa sem betur fer ekki haft erindi sem erfiði. Við höfum margfalda reynslu af því að það hefur allur gangur verið á þjónustu stóru viðskiptabankanna við fyrirtæki á landsbyggðinni og skilningur á þörfum og möguleikum utan höfuðborgarsvæðisins verið svona og svona. Inn í excel-skjölin í stóru bönkunum hefur algerlega vantað þær breytur sem taka tillit til sérstöðu landsbyggðarinnar. Það er alveg um tómt mál að tala að ætla að hefðbundnir viðskiptabankar geti komið í stað sparisjóðakerfisins. Reynslan sýnir okkur það. Þess vegna var það mjög þýðingarmikið þegar síðasta ríkisstjórn hafði forgöngu um lagasetningu sem gerir ríkisvaldinu kleift að aðstoða sparisjóðina við að sigla í gegnum þann ólgusjó sem nú er. Þær reglur sem síðan voru settar voru sanngjarnar og líklegar til að tryggja að sparisjóðirnir geti komist í gegnum erfiðleikana.

Það er mjög mikilvægt að sparisjóðirnir geti núna endurskipulagt sig á eigin forsendum. Ég vara mjög eindregið við því að reynt verði að grípa fram fyrir hendurnar á sjóðunum í þeim efnum af hálfu stjórnvalda. Það kann ekki góðri lukku að stýra ef stjórnmálamenn ætla sér þar mikinn hlut að máli. Hitt er annað mál að með þeim aðgerðum sem fram undan eru og með því að ríkið gerist svo stór aðili að sparisjóðunum, mörgum hverjum, er nauðsynlegt að fyrir liggi almenn stefna ríkisvaldsins fyrir þessu formi fjármálafyrirtækja í landinu. Það er mjög nauðsynlegt að hæstv. viðskiptaráðherra kveði upp úr um það hér og nú hver sýn ríkisvaldsins er, hvort ekki megi treysta því að þeirri stefnu verði fylgt áfram sem kostur er að net sparisjóðanna verði um land allt. Ég óttast hins vegar að sú aðkoma sem ríkisvaldið hefur að eflingu sparisjóðanna muni í einhverjum tilvikum ekki verða nægjanleg. Ég teldi þess vegna eðlilegt að ríkisvaldið stuðlaði enn frekar að því að viðhalda sparisjóðakerfinu, t.d. með því að beita tryggingarsjóði sparisjóða til að efla eiginfjárhlutfall þeirra með bakstuðningi ríkisins á meðan fram fer sú endurskipulagning sparisjóðakerfisins sem er fyrirsjáanleg og nauðsynleg.