136. löggjafarþing — 110. fundur,  23. mars 2009.

staða fjármálafyrirtækja.

[13:24]
Horfa

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Sparisjóðirnir hafa oft og tíðum verið burðarásar í atvinnulífi úti um landsbyggðina, hafa verið þær stofnanir þar sem þekking á nærumhverfinu hefur verið til staðar, hafa verið þær stofnanir sem menn hafa getað átt bakhjarl í við að reyna að tryggja rekstur fyrirtækjanna víða á landsbyggðinni. Þetta þekkjum við ágætlega sem höfum starfað og búið á landsbyggðinni um langa tíð. Það skiptir mjög miklu máli að sparisjóðakerfinu verði viðhaldið hér á landi og þó að þessi áföll hafi nú dunið yfir vænti ég þess að sá vilji sem hér hefur verið lýst yfir af ríkisstjórninni og hæstv. viðskiptaráðherra gangi eftir og menn standi vörð um að halda þeim sparisjóðum sem eftir standa og starfsemi þeirra í lagi fyrir framtíðina.

Það er auðvitað sárt að horfa til þess að stofnanir eins og SPRON, sú stofnun sparisjóðanna sem starfaði hér, Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis, skuli hafa farið með þeim hætti sem hann hefur farið. Í því sambandi má minna á umræðuna sem fór fram fyrir nokkrum árum þar sem talað var mjög hátt, með háværum kröfum, um að fé í sparisjóðum væri fé án hirðis og þyrfti sérstaklega að taka til þess að koma því í annan farveg en þá var.

Ef við lítum aftur í tímann, ætli við sjáum þá ekki að betur hefði farið að hafa sparisjóðina eins og þeir voru, halda þeim tryggum sem stoðum fyrir þá starfsemi sem þeir störfuðu í en að fara þær leiðir sem farnar voru hvað varðar stofnfé og fleira? Það má kannski orða það svo að í dag sé bara hirðirinn eftir, ætli það megi ekki orða það þannig? (Gripið fram í.) Og þá spyr maður: Til hvers var á veginn lagt?

Við urðum auðvitað vör við að stóru bankarnir fóru á fulla ferð við að reyna að eignast sparisjóðina, Sparisjóð Mýra og Borgarfjarðar sem dæmi og marga fleiri. En við höfum líka séð einstaka sparisjóði sem starfa á landsbyggðinni halda sínum gömlu gildum og standa sig ágætlega, standa sig vel fyrir sínar byggðir. Ég vænti þess, hæstv. forseti, að núverandi ríkisstjórn leggi sig sérstaklega fram um að halda sparisjóðunum starfhæfum. Við þurfum á því að halda í landinu og það veitir a.m.k. ekki af því fyrir hagsmuni landsbyggðarinnar mjög víða að sparisjóðirnir séu til staðar og að fólkið í byggðunum geti treyst á að þessar stofnanir — sem hafa oft og tíðum reynst sá bakhjarl sem mátti treysta þegar aðrir höfðu lokað fyrir lánveitingar — verði þar áfram, að fólk geti treyst því og fyrirtækin á svæðunum að þau eigi ákveðinn bakhjarl í sparisjóðunum. Ég vænti þess að það verði þó alla vega niðurstaðan. Það er hörmulegt að sífellt fleira fólk lendi á atvinnuleysisskrá og það er auðvitað að verða alstærsta vandamálið í landinu hvernig við ætlum að taka á atvinnuleysisvofunni. Það mun setja okkur flöt síðari hluta ársins ef sífellt heldur áfram að fjölga um þúsund manns á atvinnuleysisskrá landsmanna.