136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

kaup Exista á bréfum í Kaupþingi.

[15:05]
Horfa

viðskiptaráðherra (Gylfi Magnússon):

Virðulegi forseti. Ég man eftir þessari umræðu úr fjölmiðlum en þetta gerðist vitaskuld allnokkru áður en ég varð ráðherra og hafði nokkuð með yfirstjórn Fjármálaeftirlitsins að gera þannig að mér er ekki kunnugt um hver viðbrögð Fjármálaeftirlitsins urðu, ef nokkur, við þessum fréttaflutningi en tek undir með hv. þm. Pétri H. Blöndal, það er óneitanlega margt sem þarf að rannsaka í hlutafjárviðskiptum með bréf í bönkunum, hvernig þau voru fjármögnuð og í mörgum tilfellum blasir eiginlega við að þar var pottur brotinn.

Ég get ekki tjáð mig um þetta sérstaka mál vegna þess að ég hef engar frekari upplýsingar um það en þær sem fram komu í fjölmiðlum og hv. þingmaður rakti áðan.