136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

skipan sendiherra.

[15:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf):

Herra forseti. Þarna kemur hv. þingmaður að mér gersamlega úr sólarátt. Ég verð að viðurkenna að ég hef ekki hugleitt þetta. Hv. þingmaður spyr mig hvort ég hyggist beita mér fyrir þessu. Í framhaldi af því sem ég sagði honum, að ég hafi ekki hugsað um þetta til þessa, þá get ég ekki sagt að ég hafi áform um það. Hins vegar get ég sagt það að mér finnst þetta athyglisverð tillaga hjá hv. þingmanni. Ég er þeirrar skoðunar að það eigi að vera gagnsæi og jafnræði í samfélaginu. Ég er líka þeirrar skoðunar að í utanríkisþjónustunni skipti máli, sérstaklega í erfiðum samningum eins og við eigum í núna, að geta sótt í sjóð reynslu þeirra sem hafa mikla þekkingu og hafa lengi verið á vettvangi. Það erum við að gera t.d. varðandi samninga okkar í Icesave-málinu eins og hv. þingmaður veit þar sem við höfum tekið mann sem hefur margháttaða reynslu af diplómatíu en líka úr stjórnmálum og víðtæk tengsl.

En það sem hv. þingmaður varpar hér fram er hugmynd sem ég skal að minnsta kosti lýsa yfir að er einnar messu virði að skoða mjög rækilega og ég skal lofa honum því að það verður skoðað.