136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

MS-sjúklingar og lyfjagjöf.

[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Menn tala nokkuð djarflega og ég velti því fyrir mér hve mikla þekkingu þingmaðurinn hefur á þessum málum. En ég fullvissa hann um að ég tek það af mikilli alvöru að skoða með hvaða hætti við getum veitt þessum sjúklingum þá allra bestu meðferð og læknishjálp sem völ er á. Ég ætla að leyfa mér að lýsa yfir stuðningi við lækna sem annast þessa sjúklinga jafnframt því sem ég óska eftir upplýsingum um hvernig á þessum málum er haldið.

Ég veit að fyrir þinginu liggur fyrirspurn frá hv. þm. Ástu Möller sem væntanlega kemur til umfjöllunar næsta miðvikudag. Ég mun þá eiga orðastað við þingmanninn, fyrrverandi formann heilbrigðisnefndar Alþingis, sem hefur sett fram mjög alvarlegar ásakanir á hendur læknum og stjórnendum sjúkrahúsanna varðandi þennan hóp og segir að þeir (Forseti hringir.) mismuni á grundvelli menntunar. Ég mun á miðvikudaginn fara (Forseti hringir.) fram á það að hv. þm. Ásta Möller geri grein fyrir þeim alvarlegu ásökunum sem hún hefur borið fram.