136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

hugmyndir Salt Investment í heilbrigðisþjónustu.

[15:29]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Eitt vil ég leiðrétta í upphafi. Það er vissulega rétt að ég hef áhuga á að ræða um lyfið Tysabri við hv. þingmann en það sem ég vildi ekki síður ræða voru þær alvarlegu ásakanir og aðdróttanir á hendur læknum og stjórnendum Landspítalans um að mismuna sjúklingum m.a. á grundvelli menntunar. Þetta eru alvarlegar ásakanir sem hv. þingmaður þarf að færa rök fyrir. Ef þær eru sannar þarf að sjálfsögðu að leiða þær fram í dagsljósið og ég vænti þess að hv. þingmaður geri það.

Varðandi Salt Investments hef ég margoft sagt það að öllum landsmönnum, öllum fyrirtækjum er heimilt að setja á fót einkarekna þjónustu einnig á heilbrigðissviði. Enginn bannar Róberti Wessman og fyrirtækjasamsteypu hans að setja á fót einkaspítala á Suðurnesjum eða annars staðar í landinu.

Þegar kemur að því hins vegar að skuldbinda skattborgara til ábyrgðar eða heilbrigðisþjónustuna að öðru leyti þá eru það hlutir sem við þurfum að fá nánari umræðu um vegna þess að sjúklingar verða ekki fluttir landa á milli eins og hver önnur verslunarvara. Þetta er fólk og sjúkt fólk vill öryggi og það vill öryggi í bakhjarli. Ef eitthvað fer úrskeiðis hjá einstaklingi sem gengst hér undir erfiða aðgerð gæti hann hafnað inni á gjörgæsludeild. Sú gjörgæsludeild þarf þá að vera reiðubúin að taka honum opnum örmum.

Það eru slíkir hlutir sem ég vil fá nánari upplýsingar um, en áður en ég gef út einhverjar yfirlýsingar eða tek einhverjar ákvarðanir vil ég einfaldlega að allar upplýsingar verði fram reiddar.