136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

hugmyndir Salt Investment í heilbrigðisþjónustu.

[15:31]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hæstv. ráðherra kýs að taka forskot á umræðuna varðandi Tysabri og ég get alveg sagt það hér að spurningin um jafnræði við úthlutun á Tysabri er ekki komin upp úr mínum huga. Hún kemur upp í samræðum mínum við sjúklinga sem hafa leitað til mín, bæði í því tilviki sem hv. þm. Jón Gunnarsson vísaði til áðan þar sem varpað var fram spurningu um landfræðilega mismunun og jafnframt í því dæmi sem ég hef sérstaklega í huga og varðar MS-sjúkling, unga konu sem spurði þessarar spurningar um menntun. Hún kom upp í umræðu milli hennar og annarra MS-sjúklinga. Ég hlýt sem fulltrúi fólksins að varpa fram þeirri spurningu hvaða viðmiðun sé höfð til hliðsjónar þegar ákvörðun er tekin um hvaða sjúklingar fá þau gæði sem felast í þessu einstaka lyfi sem virðist gagnast um 80% af þeim sem hafa þörf fyrir það.