136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

hugmyndir Salt Investment í heilbrigðisþjónustu.

[15:33]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ef uppi eru efasemdir eða grunsemdir um að læknar og Landspítalinn mismuni fólki á þessum grundvelli er það nokkuð sem þarf að rannsaka. Þegar fyrrverandi formaður heilbrigðisnefndar kveður sér hljóðs á opinberum vettvangi, í Ríkisútvarpinu, til að halda því fram að læknar og stjórnendur Landspítalans mismuni á þessum forsendum er það alvarlegur hlutur og nokkuð sem við eigum að taka alvarlega. (Gripið fram í.) Ef rök eru fyrir þessu er það mjög alvarlegur hlutur en það er líka alvarlegur hlutur að fara með rangt mál eða setja fram ásakanir og dylgjur að órannsökuðu máli. Það er líka ábyrgðarhluti.

Ég er ekki að frábiðja mér umræðu um þessi efni, þetta á allt að vera opið og uppi á borðinu. Ef einhverjar slíkar efasemdir eru uppi þarf að sjálfsögðu að fá sannleikann fram og (Forseti hringir.) þá þarf fólk að standa fyrir máli sínu. (Forseti hringir.) Það er einn og sami maðurinn sem talar um heilbrigðismál hér sem heilbrigðisráðherra (Forseti hringir.) og sem þingmaður hér fyrr á tíð. (Forseti hringir.) Mér er gert og ég ætla mér að standa vörð um hagsmuni skattborgarans og um hagsmuni heilbrigðiskerfisins (Forseti hringir.) í landinu.