136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að óska eftir umræðu um þetta mál sem í síðustu viku vakti hörð viðbrögð í samfélaginu öllu. Í kjölfar hrunsins á fjármálakerfinu í október sl. hefur mikil umræða átt sér stað í samfélaginu um gildi og siðferði í viðskiptalífinu. Sú umræða hefur ekki einungis átt sér stað hér á landi heldur um heim allan. Það er ástæða til að nefna það, þetta hefur víða verið til umræðu og nefni ég að Obama, Brown, Merkel og fleiri þjóðarleiðtogar hafa tekið þessi mál til umfjöllunar á innlendum og alþjóðlegum vettvangi og fjallað um breytt gildi og breyttar reglur varðandi skattaskjól og ofurlaun.

Það er vissulega rétt sem kom fram hjá hv. þingmanni, sjávarútvegurinn nýtur mikils ríkisstuðnings og ekki bara það sem hv. þingmaður nefndi vegna aflasamdráttar, heldur hefur þetta tiltekna fyrirtæki, eins og hann nefndi, og reyndar fleiri sjávarútvegsfyrirtæki, notið ríkisstyrkja, t.d. í formi greiðslna úr Atvinnuleysistryggingasjóði vegna aflabrests. Þetta tiltekna fyrirtæki fékk þar 17 millj. kr. á síðasta ári. Það er vissulega hægt að taka undir að fjármagnseigendur eigi eins og aðrir að taka þátt í endurreisn efnahagslífsins. Þar eiga allir að leggja sitt af mörkum. Þess vegna var þetta dæmi sem kom upp í síðustu viku mjög sérstakt. Það er ástæða til að t.d. aðilar vinnumarkaðarins hér á landi taki til umfjöllunar á sínum vettvangi þróun samsetningar á launagreiðslum og aukagreiðslum, kaupaukasamningum, bónusum og starfslokasamningum. Ofurlaunakerfið sem átti sinn þátt í að leiða til þeirra efnahagsþrenginga sem við erum að reyna að ná okkur út úr hlýtur að þurfa endurskoðunar með og þeir sem stunda atvinnurekstur verða að bera gæfu til að finna jafnvægi á milli vinnuframlags hins almenna launafólks annars vegar og hagnaðar eigenda hins vegar og ofurlaunakjara sem eru og hafa verið á umliðnum árum úr öllum tengslum og samhengi við það sem stærsti hluti þjóðarinnar býr við og aðbúnað hans.

HB Grandi byggir í dag annars vegar á traustum stoðum vel liðins fjölskyldufyrirtækis og hins vegar á stoðum Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Þeir sem nú stjórna HB Granda hljóta að byggja á þeim gildum sem þessi fyrirtæki hafa lengst af starfað eftir og hefur það oft og iðulega verið til fyrirmyndar. Hér var líka vísað til kjarasamninga fyrir um mánuði. Þá sömdu ASÍ og SA um frestun á endurskoðun kjarasamninga. Ákveðið hafði verið að lágmarkstaxti kjarasamninga hækkaði en þá kom fram í yfirlýsingu samningsaðila að þeir teldu frestunina mikilvægt framlag til stöðugleika í efnahagslífinu. Það er hægt að taka undir það, en auðvitað heyrðust óánægjuraddir með frestun á endurskoðun kjarasamninga þar sem launþegum þótti sárt að missa af launahækkun sem þeir höfðu vænst. Launþegar sýndu líka siðferðislegan þroska og skilning á aðstæðum og féllust á þessar málalyktir. Frestunin tók m.a. til um 140 starfsmanna í landvinnslu hjá HB Granda í Reykjavík og á Akranesi.

Þegar fréttir berast síðan af því að forsvarsmenn HB Granda hyggist greiða hluthöfum arð kallar það eðlilega á mjög hörð viðbrögð í samfélaginu. Mönnum þótti lítið fara fyrir þeim siðferðislegu gildum sem svo mikið eru í umræðunni hér á landi og um allan heim í kjölfar efnahagshrunsins. Að greiða arð til eigenda upp á 184 millj. kr. eins og var gert í þessu tilviki á sama tíma og launabreytingar til láglaunafólks í fyrirtækinu voru frystar er auðvitað algjörlega siðlaust, ekki síst í ljósi þess, eins og hv. fyrirspyrjandi nefndi, að þessi fyrirtæki sem önnur njóta ríkisstyrkja af ýmsum toga. Þess vegna er fagnaðarefni að stjórn HB hefur brugðist við þeirri hörðu gagnrýni sem kom fram í samfélaginu og ég vænti þess að þeir hafi þá dregið lærdóm af því. Þessi fyrirtæki og mörg önnur ráða yfir miklum verðmætum sem aflað er úr takmörkuðum auðlindum okkar og mestur auðurinn felst auðvitað í mannfólkinu sem vinnur hjá þessum fyrirtækjum. Þess vegna var siðlaust með öllu að standa þannig að málum en sem betur fer hefur það breyst.

Ríkið hlýtur nú að skoða hvernig fyrirtæki sem þiggja ríkisaðstoð við þessar sérstöku aðstæður starfi og verji fjármunum sínum. Ég tel að þau og reyndar öll fyrirtæki sem skila hagnaði um þessar mundir hljóti að horfa til þess að verja hagnaði sínum til atvinnuuppbyggingar og fjölgunar starfa frekar en að fara í arðgreiðslur (Forseti hringir.) og stuðla þar með að uppbyggingu til framtíðar í þessum fyrirtækjum.