136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:49]
Horfa

Atli Gíslason (Vg):

Herra forseti. Ég þakka þessa umræðu og hyggst fara í einn alvarlegan vinkil þessa máls. Þá þumalputtareglu lærði ég í bókhaldsnámi og vinnu í þá tíð að viðskiptavild væri metin 10% af ársveltu. Mér er tjáð að einkabankarnir hafi frá árinu 2001 eða 2002 til ársins 2007, og sparisjóðirnir, hækkað þessa viðskiptavild jafnvel upp í 30–50% af ársveltu, myndað þannig tekjur í bókhaldi og hækkað eigið fé sem varð síðan grundvöllur lánstrausts. Þannig hafa þeir skapað loftbóluhagnað og í kjölfarið loftbóluarðgreiðslur og loftbólueigiðfé sem þeir fengu síðan lánað út á. Þetta er auðvitað svindilbrask eins og það var kallað í denn, hreint svindilbrask. Þetta hafi sparisjóðirnir líka gert og ég bið ríkisstjórnina að hafa það vel í huga áður en hún reiðir fram 20% aðstoð við þá að skoða nákvæmlega eigið fé sparisjóðanna 2007 og hvernig það hefur þróast. Ég las frétt um daginn þar sem fram kom að Byr – sparisjóður hefði tekið ákvörðun um það nýlega, fyrir viku eða 10 dögum, að færa viðskiptavild niður um 4 milljarða. Hver hefur þróun viðskiptavildar verið hjá þessum sparisjóði og bönkum sem hafa skapað þennan loftbólugræðgishagnað?

Ég hef að gefnu tilefni, vegna ásakana sem ég varð fyrir frá Byr vegna ummæla í sjónvarpi, sent bæði rannsóknarnefnd Alþingis og hinum sérstaka saksóknara erindi þess efnis að þetta verði sérstaklega skoðað. Ég hygg að mikill hluti af arðgreiðslum úr bönkunum þessi 5–6 ár hafi komið til af þessu. Það er grafalvarlegt og er rannsóknarefni.