136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[15:58]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hlutafé er lífæð atvinnusköpunar, það eru einstaklingar og fyrirtæki sem leggja atvinnulífinu til fjármagn með þessum hætti og ekki er líklegt að sú verði raunin ef það áhættufé sem lagt er í rekstur skilar ekki arði til einhvers tíma. Það er mikilvægt að regluverkið sé traust og fyrirtæki geti haslað sér völl. Við sérstakar aðstæður í samfélaginu gerðu Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingarinnar samkomulag um að fella niður ákvæði í kjarasamningum til að auka á stöðugleika í efnahagslífinu. Það hefur komið í ljós að þarfir fyrirtækja eru mismunandi við þær aðstæður sem eru í samfélaginu og einhver sjávarútvegsfyrirtæki og vonandi mörg önnur eru þess búin að skila arði í þetta samfélag áfram og geta haldið uppi launagreiðslum þannig að þessir samningar þurftu ekki að taka til allra fyrirtækja.

Siðlaust með öllu, sagði hæstv. forsætisráðherra. Mér finnst það sem hún hefur sagt í umræðunni að sumu leyti vera siðlaust, af hennar hálfu. Það varð sátt um það þegar samningur Granda í þessu tilfelli og verkalýðsfélaganna var endurnýjaður og þeir ákváðu að standa við þær launagreiðslur sem um var samið og það er gott. Það sýnir okkur að sjávarútvegurinn stendur traustum fótum og getur vonandi greitt góð laun í framtíðinni.

Þá komum við að öðrum rekstri, ríkisrekstrinum. Það er eitt fyrirtæki sem er 100% í eigu ríkisins, Íslandspóstur. Íslandspóstur skilaði 78 millj. kr. í hagnað fyrir árið 2008. Ríkissjóður, undir forustu hæstv. forsætisráðherra, lét þetta ríkisfyrirtæki greiða ríkinu 80 millj. kr. í hagnað, í arðsemi af hlutafé. Þetta er u.þ.b. sama prósenta og Grandi lét greiða af nafnvirði hlutafjár hjá sér. Þá spyr ég hæstv. forsætisráðherra: Mun hún ekki setja í gang launasamninga starfsfólks Íslandspósts? Mun hún ekki standa við það að láta Íslandspóst greiða starfsmönnum sínum umsamda samninga (Forseti hringir.) eða gengur þetta siðleysi, sem hæstv. ráðherra kallar svo, bara yfir hin almennu fyrirtæki en ekki fyrirtæki í ríkisrekstri?