136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[16:00]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg):

Herra forseti. Umræðan um arðgreiðslur minnir okkur á hversu mikil ósanngirni hefur verið í samfélaginu á undanförnum árum. Arðgreiðslur og fjármagnstekjur hafa verið miklu lægra skattlagðar — borgað hefur verið hlutfallslega miklu minna af þeim til samfélagsins en t.d. af launum. Við leggjum áherslu á að allir komi að og leggi sitt af mörkum, hver sem getur, í uppbyggingu atvinnulífsins, uppbyggingu samfélags. Þeir gera það með sköttum, þeir gera það með vinnu, þeir gera það með hugviti en þá eiga fjármagnseigendur líka að leggja sitt af mörkum.

Við þingmenn Vinstri grænna höfum ítrekað flutt á Alþingi tillögur um að þeir sem hafa tekjur sínar í formi arðs eigi að greiða hlutfallslega í skatta eins og það væru launatekjur, alls ekki minna. Því hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins aftur á móti á undanförnum árum lagst þvert gegn. Hún hefur staðið sérstakan vörð um fjármagnseigendur og arðgreiðslur. Í Fréttablaðinu 17. mars sl. segir forstjóri HB Granda um málið: Fjármagnið umbunar en starfsfólk hefur ekki lagt fram kröfu um að staðið sé við umsamdar launahækkanir. Nei. (Gripið fram í.) Starfsfólkið tók sinn þátt, það ætlaði að axla sína ábyrgð en nauðsynlegt þótti að greiða eigendunum arð. Gott og vel að fyrirtækið skili arði en þá skulu þeir sem greiðslurnar fá líka greiða skatta eins og launafólk og það er það sem mér finnst einna brýnast að hugað sé að.

(Gripið fram í.) Starfsemi Íslandspósts? Ég tel að Íslandspóstur eigi aftur að verða venjuleg þjónustustofnun í eigu ríkisins og þó að komi tekjur af Íslandspósti renna þær beint inn til ríkissjóðs. (Gripið fram í.)