136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[16:03]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Ég held að við séum öll sammála um það sem erum í þessum sal að við viljum að fyrirtækin séu rekin með hagnaði, að arður sé af rekstri fyrirtækja. Menn stefna alltaf að því í fyrirtækjarekstri til að geta borgað hærri laun og lagt inn til samfélagsins. Það er akkur í því þannig að auðvitað er það stefnan. Hins vegar er staðan sú í samfélagi okkar nú að við höfum orðið fyrir miklu efnahagsáfalli og fjöldi manns er atvinnulaus. Allir hræðast atvinnuleysi, fólk vill ekki verða atvinnulaust. Í því umhverfi og ástandi náðist samkomulag um að halda aftur af umsömdum launahækkunum þannig að þær eru látnar bíða. Mér finnst verkalýðshreyfingin sýna mikla ábyrgð með því að stíga það skref í staðinn fyrir að krefjast launahækkana sem búið var að semja um. Ákvörðunin verður að skoðast í því ljósi. Hún er tekin í þessu umhverfi og þess vegna er of léttvægt að segja að hún sé klaufaleg. Hún er verri en svo að hún sé bara klaufaleg. Að mínu mati er þetta röng ákvörðun í ljósi þess ástands sem hér ríkir og það er gott að HB Grandi hefur séð að sér og ætlar nú að standa við launahækkanirnar.

Fulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði áðan að hæstv. forsætisráðherra hefði att mönnum saman og reynt að grafa undan trausti á milli aðila. Er það ekki þannig, virðulegi forseti, að það ríkti traust á milli aðila, það mikið að verkalýðsforustan treysti sér til að biðja fólk sitt að halda aftur af sér í umsömdum launahækkunum? Halda menn að traustið hafi aukist við ákvörðunina um arðgreiðslur, 185 millj. til HB Granda-eigendanna? Nei. Ef einhver grefur hér undan traustinu eru það þeir sem reka fyrirtækið en ekki hæstv. forsætisráðherra. (Gripið fram í.) Alls ekki.

Sem betur fer hafa menn tekið nýja ákvörðun þannig að við skulum vona að þetta mál fái farsælan endi. En ég vona að önnur fyrirtæki falli ekki í sömu gryfju og HB Grandi gerði að þessu leyti.