136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[16:08]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og hæstv. forsætisráðherra fyrir svörin og ég er algerlega sammála mati hæstv. ráðherra á þessu athæfi sem rætt er um.

Hagnaður upp á 2.300 millj. kr. er mjög góð afkoma á alla mælikvarða við allar aðstæður. Fyrirtæki sem hefur slíka afkomu þarf enga sérmeðferð. Það þarf ekki að vera einhver sérleið í þjóðfélaginu þar sem því er ívilnað með ýmsum hætti umfram það sem gengur og gerist hjá almennum launamönnum. Það er það óeðlilega í þessu máli, virðulegi forseti. Það er ekki óeðlilegt við að borga 8% arð. Ég tek ekki undir gagnrýni á það. En mér finnst óeðlilegt að fyrirtæki sem gengur vel skuli njóta margfaldrar og margháttaðrar ívilnunar af hálfu ríkissjóðs sem sparar fyrirtækinu útgjöld upp á hundruð millj. kr. á ári og gefur því á sama tíma tækifæri til sem það nýtir sér til að afla sér tekna upp á hundruð millj. kr. á hverju ári með leigu veiðiheimilda sem það á ekki og fær afhent frá ríkinu án þess að borga krónu fyrir. Hvers konar viðskiptahættir eru það, virðulegi forseti, að menn fái afhent árlega fullt af verðmætum frá ríkissjóði endurgjaldslaust? Þeir hafa frjálsar hendur með að arðræna hvern þann sem hefur þörf á þessum heimildum um það fé sem mönnum tekst að plokka úr vösunum á þeim atvinnurekendum — því að það eru atvinnurekendur líka, það eru menn í atvinnurekstri, það eru einkaframtaksmenn sem eru þjóðfélaginu nauðsynlegir sem svona er farið með, virðulegi forseti. Það gengur ekki að hafa leikreglurnar í þjóðfélaginu svona og ég lít svo á að það sé eitt af stórum verkefnum næstu ríkisstjórnar á næsta kjörtímabili að leiðrétta þessa skekkju í leikreglunum í þjóðfélaginu.