136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

arðgreiðslur í atvinnurekstri.

[16:10]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er alveg óhætt að taka undir það með hv. þm. Kristni H. Gunnarssyni að það þarf að leiðrétta leikreglurnar í þjóðfélaginu á margan hátt. Eins og ég nefndi í ræðu minni áðan eru kaupaukar eitt af því sem við þurfum að taka upp og skoða miklu nánar en hefur verið gert núna, og bónusgreiðslur og ofurlaunasamningar og annað í þeim dúr sem viðgengist hefur í gegnum árin. Það er á margan hátt liður í því hruni sem við höfum orðið fyrir. Ég get tekið undir með hv. þingmanni sem talaði áðan, 7. þm. Suðurk., Atla Gíslasyni, að vissulega er hægt að rekja mörg dæmi um það sem hann kallaði loftbóluarðgreiðslur, ég held að það hafi verið orðið sem hv. þingmaður notaði. Það hefur á margan hátt verið gert með þeim aðferðum sem hv. þingmaður skoðaði og er því eðlilegt að þessi umræða sé tekin upp eins og gert hefur verið. Mér finnst þingmenn Sjálfstæðisflokksins taka því mjög sérkennilega að ég skyldi nota orðið „siðleysi“ við að greiða arðgreiðslur út með þessum hætti á sama tíma og verið er að frysta samningsbundna launagreiðslu til fólks. Það er auðvitað ekki hægt annað en að kalla það siðleysi og ég veit ekki betur en að ýmsir þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi farið nálægt því að kalla þetta siðleysi. Ég man ekki betur en hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, (Gripið fram í.) hafi kallað þessar greiðslur ólíðandi. (Gripið fram í.) Það er alveg rétt hjá hv. þingmanni að þetta er ólíðandi og það er meira að segja hægt að nota orðið „siðlaust“ (Gripið fram í.) um svona greiðslur. (Gripið fram í.) En hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir fer oft miklu nær sannleikanum (Gripið fram í.) en margir þingmenn Sjálfstæðisflokksins (Gripið fram í.) og á hún hrós skilið fyrir það.