136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:16]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég vakti máls á því í ræðu minni áðan að ég saknaði þess að ekki væru fleiri mál á dagskránni sem vörðuðu efnahagslegar aðgerðir. Mér fannst það koma fram í máli hæstv. forsætisráðherra þegar hún lét þau orð falla að seðlabankamálið þyrfti að klárast án tafar vegna brýnna efnahagslegra aðgerða að í rauninni væri seðlabankamálið ekki að stífla nein mál. Það kom ágætlega fram í máli hennar, hún notaði það orðaval til að þrýsta á að málið sjálft yrði klárað, vegna þess að það voru efnisatriði í málinu sjálfu. Það voru engar aðrar efnahagslegar aðgerðir sem biðu þess að seðlabankamálið kláraðist.

Sannarlega liggja ýmis mál fyrir þinginu, mörg þeirra sem eiga rætur í fyrri ríkisstjórn eru enn þá í úrvinnslu í nefndum þingsins. Við sjálfstæðismenn viljum allt til málanna leggja til þess að ljúka meðferð slíkra mála og ljúka nefndarvinnu. En við kvörtum undan því að hér líði hver dagurinn á fætur öðrum án þess að þau mál séu afgreidd (Forseti hringir.) og sífellt koma ný mál sem hafa ekkert með efnahagsstöðuna að gera. Hvað segir Framsóknarflokkurinn um það, sem styður þessa ríkisstjórn (Forseti hringir.) til þess að klára efnahagslegar aðgerðir en samþykkir stanslaust önnur (Forseti hringir.) alls óskyld mál? (Gripið fram í: Ertu að tala um …)