136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:19]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Það má bera blak af ríkisstjórninni í þessu máli. Vandinn sem við er að glíma er ærinn og það er alveg vitað að hvort sem það var þessi nýja eða sú gamla þá yrðu menn lengi að finna svörin, lengi að koma málunum fram og það þyrfti nokkurn tíma til þess að afgreiða þau. Það kemur mér ekki á óvart að eitthvað sé óframkomið af málum og eitthvað af þeim sé enn þá til meðferðar í þinginu og eru jafnvel ekki langt komin í vinnu þingsins.

Staðreyndin er sú að kosningarnar eru algerlega ótímabærar. Við sjáum það á þátttöku almennings í þeim prófkjörum með örfáum undantekningum sem fram hafa farið að hún hefur verið mjög dræm og áhugi almennings hefur verið mjög lítill. Ég held að það sé vegna þess að það er ekki enn þá orðið skýrt í hugum manna hver vandinn er, hvernig úr honum verður unnið, hver ber ábyrgð á honum og hver er lærdómur stjórnmálaflokkanna af því sem hefur gerst. Það liggur ekki fyrir fyrr en eftir langan tíma, kannski ár eða svo og fyrr en það liggur fyrir eru kjósendur bara ráðvilltir rétt eins og hver annar þingmaður.