136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

stjórnarfrumvörp um efnahagsmál.

[16:28]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Þessi umræða er komin út um víðan völl þegar hér er rætt um fundarstjórn í allsherjarnefnd eða framkvæmd mála í allsherjarnefnd frekar en fundarstjórn forseta. Það er annar vettvangur til þess sem er umræða um störf þingsins.

Ég held að það sé ekki hægt að leggja mál út með þeim hætti sem hv. þm. Ólöf Nordal gerði hér áðan. Málið um greiðsluaðlögun er í meðförum nefndarinnar og við höldum fund á morgun með það fyrir augum að taka það út úr nefndinni sem og önnur mál. Við erum að ljúka við nefndarálit og ég sé enga ástæðu til að ætla annað en að það klárist.

Ég taldi óhjákvæmilegt að þetta kæmi fram þrátt fyrir að hér sé um að ræða liðinn fundarstjórn forseta.