136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:36]
Horfa

Frsm. menntmn. (Einar Már Sigurðarson) (Sf):

Herra forseti. Menntamálanefnd fjallaði um þetta mál eftir 1. umr. enda var málinu vísað til nefndarinnar. Málið var lagt fram af menntamálanefnd og eftir umræðu um málið í nefndinni leggur hún til að það verði samþykkt óbreytt.

Hér er verið að fjalla um einfaldan hlut, þ.e. að leggja til að bráðabirgðaákvæði V við grunnskólalög falli brott en það gerir ráð fyrir að fram fari á fyrri hluta árs 2009 samræmt könnunarpróf í 10. bekk. Í grunnskólalögum er gert ráð fyrir því að slík próf fari fram að hausti enda meginhugsunin sú að þau séu nýtt til þess að afla upplýsinga bæði fyrir nemendur og skóla um það hvernig bregðast megi við stöðu nemenda, þ.e. að nemendur og skólar hafi aðstöðu til að bæta úr ef einhvers staðar eru veilur í undirbúningi fyrir lok grunnskóla.

Ekki er talin ástæða til að þessi próf fari fram núna og þess vegna er lagt til að þetta ákvæði til bráðabirgða V verði fellt brott. Algjör samstaða er um þetta í menntamálanefnd eins og ég sagði áðan og því leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.