136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

grunnskólar.

421. mál
[16:42]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta gagnkvæma skjallbandalag fer að verða hættulegt hér en ég vil engu að síður þakka líka hlý orð í minn garð. En ég held að við lítum bæði sömu augum á þann vanda og það viðfangsefni sem við okkur blasir. Við viljum bæði forgangsraða í þágu réttra mála, þ.e. í þágu menntamála, af því að við teljum að menntun og rannsóknir muni stuðla að því að við komumst fyrr út úr þeirri kreppu sem við erum stödd í núna. Og við þurfum að standa vörð um velferðarkerfið en engu að síður þurfum við líka að taka á þeim fjármunum sem í þá málaflokka renna og ég held að það sé mikilvægt að um það náist víðtæk samstaða. Ég held að það verði í rauninni að skapast víðtæk samstaða um það því að ellegar geti orðið allt að því óeirðir og mikil reiði ef við reynum ekki að gera þetta saman þannig að fólk skilji af hverju við þurfum að bera niður á þessum stöðum eins og annars staðar í kerfinu.

Við þurfum alla vega að forgangsraða í þágu menntamála, í þágu rannsókna, og ég held að það sé rétt að við förum betur yfir þessi mál á eftir. Og mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti miðlað til okkar þeirri reynslu og þekkingu sem hann hefur af áratugavinnu og starfsemi innan menntageirans, miðlað því til okkar hvernig hann sæi því best fyrir komið hvernig við förum í það að hagræða. Eigum við að fara í það að sameina menntastofnanir, háskólastofnanir, rannsóknastofnanir, skólastofnanir á öllum skólastigum? Geta sveitarfélögin líka séð svigrúm til að fara þar í aukna hagræðingu og stuðla þannig að því, og það er það sem skiptir svo miklu máli, að reynt sé að viðhalda þjónustustiginu fyrir sama fjármagn og helst minna? Það er það sem við stöndum frammi fyrir núna og við skulum reyna að gera það sem best og gera það í sameiginlegri vinnu.

Mér þætti gott að heyra það á eftir — og ég geri þá ráð fyrir að hv. þingmaður komi upp í ræðu á eftir — hvernig við förum í þetta mikilvæga mál, þ.e. hvernig við tökum á menntamálunum í þeirri miklu vinnu sem tengist fjárlögum næsta árs.