136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

náms- og starfsráðgjafar.

422. mál
[17:16]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér við 3. umr. frumvarp til laga um náms- og starfsráðgjafa. Ég vil af því tilefni nefna að í 1. gr. frumvarpsins stendur, með leyfi forseta:

„Rétt til að kalla sig náms- og starfsráðgjafa og starfa sem slíkur hefur sá einn sem til þess hefur leyfi menntamálaráðherra, sbr. 2. mgr. “

Ég tel hins vegar brýnt af þessu tilefni að nefna að í 4. gr. stendur, með leyfi forseta:

„Menntamálaráðherra er heimilt að veita þeim sem eru í starfi þegar lög þessi öðlast gildi leyfi það sem um ræðir í 1. mgr. 1. gr. enda þótt þeir uppfylli ekki skilyrði 2. mgr. 1. gr. “

Ég vil benda á að þegar Kennaraskólanum var breytt í Kennaraháskóla þá glötuðu ekki þeir sem höfðu hlotið menntun úr Kennaraskólanum sinni menntun þegar Kennaraháskólinn tók við. Ég tel því afar brýnt að á þetta sé lögð áhersla vegna þess að þetta frumvarp er í samræmi við það sem gert var þegar Kennaraskólanum var breytt í Kennaraháskóla. Þeir sem hafa öðlast menntunina glata ekki réttindum sínum þrátt fyrir að námið sem þeir áður stunduðu hafi ekki verið á háskólastigi og verði flutt yfir á háskólastig. Þeir halda réttindum sínum. Það er afar brýnt að þetta sé áréttað því að þetta mun skipta þó nokkuð marga aðila máli.

Hæstv. forseti. Að öðru leyti styð ég að sjálfsögðu þetta frumvarp eins og öll menntamálanefndin gerði og vonast til að það verði að lögum frá hv. Alþingi sem fyrst.