136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

tóbaksvarnir.

162. mál
[17:19]
Horfa

Frsm. heilbrn. (Þuríður Backman) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá heilbrigðisnefnd með frumvarpi um breytingu á lögum nr. 6/2002, um tóbaksvarnir, með síðari breytingum. Þetta nefndarálit er á þskj. 679, 162. mál.

Nefndin fékk á sinn fund fjölmarga aðila og eins fékk nefndin umsagnir frá mörgum líka hvað varðar þetta frumvarp og voru umsagnir nær eingöngu jákvæðar.

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að telja upp alla þá sem ýmist komu á fund nefndarinnar eða sendu umsagnir en það er hægt að sjá það á nefndarálitinu.

Í frumvarpinu eru lagðar til tvær efnisbreytingar til samræmis við tilskipanir Evrópuþingsins og ráðs Evrópusambandsins. Önnur varðar heimild ráðherra til að setja ákvæði um varúðarmerkingar tóbaks í formi litmynda en hin útfærslu á undanþágum sem leyfðar eru frá auglýsingabanni tóbaksvarnalaga. Í annan stað eru lagðar til tvær formbreytingar sem varða annars vegar 1. málsl. 4. mgr. 6. gr. og hins vegar 2. mgr. 8. gr. og er vísað til þess í athugasemdum að þær hafi verið tilkynntar til Eftirlitsstofnunar EFTA. Loks gerir frumvarpið ráð fyrir að heimild Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins til að gefa út verðskrá fyrir tóbak falli brott en að því er ekki sérstaklega vikið í athugasemdum frumvarpsins. Nefndinni var tjáð að breytingin kæmi meðal annars til vegna athugasemdar frá Eftirlitsstofnun EFTA og telur nefndin því rétt að benda á að ekki eru lengur ákvæði í lögunum sem kveða á um heimild ÁTVR til að ákveða verð tóbaks í smásölu. Nefndin áréttar jafnframt að ekki er um efnisbreytingu að ræða þar sem ÁTVR verður eftir sem áður heimilt að birta verð á því tóbaki sem stofnunin selur í heildsölu. Enn fremur skal áréttað að verðlisti tóbaks telst ekki vera auglýsing í skilningi laganna og því taka ákvæði um auglýsingabann tóbaks ekki til verðlista ÁTVR.

Á fundum nefndarinnar kom fram að frumvarpið fylgdi eftir þróun tóbaksvarna innan Evrópusambandsins þar sem rannsóknir bentu til þess að varúðarmerkingar í formi litmynda næðu til breiðari hóps en hefðbundnar textamerkingar. Nefndin bendir á að við útfærslu reglna um varúðarmerkingar í formi litmynda verði tekið mið af framkvæmd sem viðhöfð var við setningu reglugerðar nr. 236/2003, um viðvörunarmerkingar á tóbaki og mælingar og hámark skaðlegra tóbaksefna.

Nefndin styður frumvarpið og bendir á að flestar umsagnir hafi verið mjög jákvæðar í garð frumvarpsins, en huga verði að reglugerðarbreytingum samfara afgreiðslu frumvarpsins. Það er þjóðhagslegur ávinningur af því að draga úr tóbaksnotkun og stuðningur til reykleysis er þar mikilvægur þáttur. Upplýsingum um þennan þátt tóbaksvarna væri hægt að koma á framfæri á nýjum merkimiðum tóbaksvara sem seldar eru hér á landi. Loks bendir nefndin á mikilvægi þess að fylgst sé með tilmælum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um myndmerkingar á tóbaksvörum hvað varðar form, gerð og stærð litmyndanna og þau tilmæli höfð til hliðsjónar við setningu reglugerða um þetta efni að því leytinu til sem þær hafi ekki náð jafnlangt og reglur Evrópusambandsins.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Ágúst Ólafur Ágústsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Álfheiður Ingadóttir og Kristinn H. Gunnarsson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Undir þetta rita sú sem hér stendur, formaður heilbrigðisnefndar og hv. þingmenn Ásta Möller, Ellert B. Schram, Eygló Harðardóttir og Pétur H. Blöndal.

Hæstv. forseti. Hér er í raun verið að heimila eða fella í lög að aðvörunarmerkingar á tóbaksvörum verði í formi texta og litmynda þannig að öllum verði ljóst hvaða skaðsemi tóbaksneysla getur valdið á ýmsum sviðum. Það eru þegar til staðlaðar gerðir slíkra merkinga innan Evrópusambandsins sem heimilt er að nota. Þá er ánægjulegt að minnast þess að hér fyrir nokkrum árum síðan vorum við Íslendingar í fararbroddi hvað varðar merkingar, myndmerkingar á tóbaksvörum. En þó að þær hafi þá ekki verið jafnnákvæmar og þær merkingar sem hér er verið að leggja til vorum við það mikið í fararbroddi að við féllum ekki undir reglur Evrópusambandsins og urðum að hætta að vera þessi frumkvöðlar sem við vorum og setja inn textamerkingar sem þá var ákveðið í reglugerðum Evrópusambandsins. En við höfum skrifað undir alþjóðlegan sáttmála Sameinuðu þjóðanna um varnir gegn tóbaksnotkun og þar segir til um það hvernig merkingar eiga að vera. Nú er hér vísað til þess í nefndarálitinu að það beri að hafa þessi tilmæli Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar til hliðsjónar og er þá vísað til þess að í þessum málum er ör þróun og rétt að fylgjast með því ef fram koma nýmæli hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni sem við getum tekið upp. Þá gætum við aftur orðið frumkvöðlar og tel ég mikilvægt að við gerum það því að til er mikils að vinna. Tóbakið er einn af hinum mestu skaðvöldum og áhrifaþáttum hvað varðar heilsufar þjóðarinnar. Það hefur margvísleg áhrif, kemur niður á lífsgæðum og veldur sjúkdómum og þar af leiðandi miklum kostnaði í heilbrigðisþjónustunni hjá okkur sem og í öðrum löndum. Þar sem það er orðið vísindalega sannað að þessi aðferð hefur áhrif og dugar til að draga bæði úr því að fólk byrji að reykja og þá sérstaklega unglingar og hvatning öðrum sem hafa hafið notkun tóbaks til að hætta þá tel ég mikilvægt að við tökum hið fyrsta upp þessi nýmæli og leiðum þau í lög.