136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

tóbaksvarnir.

162. mál
[17:27]
Horfa

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Hér er komið til 2. umr. frumvarp til laga um breytingu á lögum um tóbaksvarnir, með síðari breytingum og varðar þær tvær efnisbreytingar sem hv. þm. Þuríður Backman gerði grein fyrir hér áðan, annars vegar varúðarmerkingar tóbaks á formi litmynda og hins vegar undanþágur er leyfðar eru frá auglýsingabanni tóbaksvarnalaga.

Það verður að segjast eins og er að þetta mál hefur verið að velkjast svolítið í nefndinni. Það hefur fengið ágæta umfjöllun og töluvert mikið af gestum hafa gefið umsagnir sem flestar hafa verið á einn veg, að styðja við þetta mál. Þannig er að löggjöf hér á landi varðandi tóbaksvarnir er með því strangasta sem við þekkjum í heiminum í dag. Við höfum yfirleitt verið í fararbroddi varðandi nýjar leiðir í tóbaksvörnum og má í raun einnig bæta við að þar höfum við náð ákveðnum árangri. Við höfum náð ákveðnum árangri með því að beita þessum ströngu reglum. Reglulega sjáum við niðurstöður af könnunum um reykingar meðal barna og unglinga og það sýnir sig að þær fara hratt minnkandi. Reykingar meðal unglinga fara hratt minnkandi í skólum landsins. Það er mjög góð lexía fyrir okkur. Við vitum líka að eftir því sem við náum að halda börnum og unglingum lengur reyklausum — það er talað um það meðal annars að ef krakkar eru reyklausir 18 ára eru litlar líkur á að þeir taki upp á því síðar meir að reykja. Það er því til mikils vinnandi því að við þekkjum það nú hvað reykingar eru skaðlegar heilsu manna. Ég tel reyndar að flestir sem reykja í dag segi að ef þeir hefðu vitað hvaða áhrif þetta hefur á heilsuna mundu þeir ekki hafa tekið upp á þeim ósóma — ef ég má orða það svo — á sínum tíma.

Við höfum stigið töluvert mörg skref á síðustu árum sem hafa þá þegar sýnt sig í tölum að það dregur úr reykingum. Reyndar — sem er mjög óvenjulegt hér á landi miðað við önnur lönd — eru reykingar meðal kvenna meiri en meðal karla. Í flestum öðrum löndum er því öfugt farið og það er ákveðið áhyggjuefni hjá okkur og hefur meðal annars verið talið ein af ástæðunum fyrir því að íslenskar konur skora ekki eins hátt varðandi langlífi og karlar í heiminum, þ.e. langlífi íslenskra karla er viðbrugðið. Þeir eru með þeim elstu í veröldinni en íslenskar konur hafa dottið niður á listanum og meðal annars hefur það verið rakið til þess að íslenskar konur reykja meira en karlar.

Ég vil jafnframt nefna að fyrir nokkrum árum voru gerðar breytingar á lögum á hinu háa Alþingi er varða reykingar á veitingastöðum. Það hafði verið deilumál um alllangt skeið hvort fara ætti þá leið að banna reykingar á veitingastöðum. Ég var nú þeirrar skoðunar að það ætti að gera það en þeir sem mæltu fyrir því fengu mikla andstöðu hér í þinginu. Niðurstaðan varð hins vegar sú að reykingar eru núna alfarið bannaðar á veitingastöðum, sem ég tel að flestöllum þyki til bóta. Það er betra andrúmsloft á veitingastöðunum og veitingamenn sjálfir eru mjög ánægðir með þessa ákvörðun sem var tekin á sínum tíma og telja meðal annars að hreinlæti hafi batnað.

Á hinn bóginn má líka segja að umgengni utan veitingastaðanna hefur versnað að sama skapi og ýmislegt kom þar upp í kjölfarið sem þurfti síðan taka á. En slík ákvörðun var náttúrlega ekki tekin nema vegna áeggjanar Samtaka ferðaþjónustu en innan þeirra raða eru veitingamenn og gistihúsaeigendur og það var alfarið þeirra mat að best væri að fara þessa leið og sem ég tel í dag að hafi verið rétt ákvörðun.

Það kom líka upp úr þeirri lagabreytingu að rannsóknir sýndu að það dró úr hjartaáföllum og samkvæmt athugunum meðal annars landlæknis, ef ég man rétt, fækkaði hjartaáföllum á sjúkrahúsunum í kjölfar þessara breytinga. Manni fannst þetta ákveðin fjarstæða, að það væru ekki þau miklu tengsl þar á milli sem var látið að liggja. En þessi rannsókn eða athugun sem var þá gerð hér á landi endurspeglar það sem hefur sýnt sig í öðrum löndum, til dæmis á Írlandi — hvort það var ekki í Noregi líka — að þá sýndu tölur að tíðni hjartaáfalla minnkaði verulega. Það er í sjálfu sér mjög stór áfangi að þetta litla atriði, sem mörgum þótti stórt á sínum tíma, yrði þess valdandi að heilsa manna batnar.

Þetta frumvarp fjallar um tóbaksvarnir, um að setja ákvæði um varúðarmerkingar tóbaks í formi litmynda á tóbaksvörur. Það hafa verið stigin mörg skref á undanförnum árum varðandi útfærslu varúðarmerkinga á sígarettur og á tóbak. Margar þeirra hafa þótt frekar ógeðfelldar og eru til þess fallnar að hræða fólk enda er það sennilega tilgangurinn með því. En það var sem sagt niðurstaða Evrópusambandsins eða ráðs Evrópusambandsins sem kemur fram í tilskipunum Evrópuþingsins að þetta væri rétt leið að fara, þ.e. að í stað svarthvítra mynda ættu litmyndir að koma þar inn í og að það sé árangursríkt sem varúðarmerking og til þess að fæla fólk frá tóbaki.

Segja má að ákveðin forræðishyggja sé í þessu. En út frá þjóðhagslegum mælikvörðum og því sem ég hef meðal annars nefnt hér um heilsu manna og tóbaksneyslu unglinga tel ég að farin hafi verið rétt leið í þessu sambandi.