136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[17:39]
Horfa

Ásta Möller (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð aðeins að fá að leiðrétta hv. þingmann af því að málefni aldraðra, og framkvæmdastjóra aldraðra, voru flutt frá heilbrigðisráðuneyti yfir til félagsmálaráðuneytisins um áramótin þarsíðustu — (Gripið fram í: þarsíðustu.) ekki um síðustu áramót, þannig að það var á valdi félagsmálaráðherra að koma þessu fram. Ég ætlaði reyndar að spyrja hv. þingmann um frumvarpið því að það kemur fram á mjög óvenjulegum tíma. Yfirleitt er þetta lagt fram í tengslum við fjárlögin eins og fram kom í máli hv. þingmanns en kemur núna seint á vorþingi. Í sjálfu sér kemur það ekki að sök þar sem gjaldið kemur inn á álagningarskrána fyrir þetta ár þannig að enginn skaði er skeður. Það kom mér mjög á óvart að frumvarpið skyldi ekki koma fram í haust, ekki það að ég hafi sérstaklega verið að leita eftir því en það hefur venjulega komið fram á haustin en ekki á vorin.

Mig langaði í framhaldi af því að spyrja hv. þingmann, vegna þess að yfirleitt þegar þetta mál hefur verið til umræðu, á hverju ári, hefur verið rætt um réttmæti nefskatts. Nefskattur eins og þessi er sem sagt ákveðin upphæð hvers gjaldanda burt séð frá tekjum, hann leggst misþungt á fólk og hefur verið talinn óréttmætur skattur. Meðal annars hefur hæstv. félagsmálaráðherra, sem núna leggur þetta frumvarp fram, hæstv. ráðherra Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, margoft látið hafa eftir sér í ræðum, einmitt um sambærilegt frumvarp, að þetta væri mjög óréttlátur skattur. Þá langaði mig til þess að spyrja hv. þingmann hver hans skoðun sé á þessum skatti sem nefskatti.