136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

málefni aldraðra.

412. mál
[17:46]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Þuríður Backman) (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvörin því að þau gefa tilefni til að ræða þetta örlítið þótt í stuttu máli sé. Eins og ég nefndi áðan þarf að horfa á heildina, hvernig við viljum sinna öldruðum bæði hvað varðar greiðsluþátttöku aldraðra í þjónustunni eins og dvalarheimilunum, hvernig þau vilja standa að uppbyggingunni og byggingu hjúkrunarheimila. Á nefskatturinn að vera áfram eða á að standa að fjármögnun heimilanna á annan hátt hvað varðar uppbyggingu hjúkrunarheimila eða eigum við að fara út af þeirri braut sem mörkuð hefur verið, að byggja heimili, hjúkrunarheimili, dvalarheimili? Eigum við að leggja miklu meiri áherslu á heimaþjónustu, bæði heimahjúkrun og heimaþjónustu? Á samþætta meira hjúkrun og félagsþjónustu? Hvernig viljum við standa að þjónustu við aldraða yfirleitt, hvað varðar fjármögnunina, kostnað sjúklinganna, kostnað aldraðra við þjónustuna o.s.frv.? Það er verðugt verkefni fyrir okkur öll sem erum í stjórnmálum að móta þetta til framtíðar, að doka aðeins við kröfuna um hjúkrunarheimilin. Vissulega er töluverð þörf á höfuðborgarsvæðinu en það fer líka saman við það hversu öflug heimaþjónustan og heimahjúkrun Reykjavíkurborgar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu er og burðir til að taka við þessu. En fyrst og fremst held ég að við verðum að horfa á þetta með heildarsýn og að gætt sé aðhalds jafnframt því sem við verjum grunnþjónustu við aldraða.