136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

atvinnuleysistryggingar.

376. mál
[19:02]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessi svör. Ég get alveg fallist á þau atriði sem komu fram í máli hv. þm. Þuríðar Backman. Ég átta mig samt ekki á síðasta atriðinu sem varðar breytta skilgreiningu þeirra sem teljast sjálfstætt starfandi vegna þess að auðvitað er um það að ræða, eins og við vitum, að fjölmargir sem starfa á eigin vegum og eru sjálfstætt starfandi í öllum almennum skilningi þeirra orða eru með rekstur sinn í formi einkahlutafélags — einkahlutafélög eru algengust þó að dæmi séu um hlutafélög eða sameignarfélög í því sambandi. Einkahlutafélögum hefur fjölgað mjög mikið á undanförnum árum, eins og við vitum, og mörg þeirra eru einmitt félög sem eru í rauninni bara utan um atvinnurekstur eins manns. Það á m.a. við um iðnaðarmenn, trillukarla, ráðgjafa og sérfræðinga af öðru tagi.

Ég velti fyrir mér hvers vegna verið er að breyta þessari skilgreiningu og þrengja hana að þessu leyti. Þá hlýtur maður auðvitað að velta fyrir sér um leið hvaða áhrif sú breyting mun hafa, hvort hún geti leitt til þess að fleiri eigi þess kost að falla undir hlutabæturnar eða hvort þeim fækki og ég velti þá fyrir mér að hvaða leyti það mál hefur verið rætt í nefndinni.