136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:18]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir því að hv. þm. Björn Bjarnason sagði hér, eins og í fyrri ræðu, þegar við ræddum þessi mál við 1. umr., að ágreiningur hefði verið í fyrri ríkisstjórn um heimildir. Hv. þm. Björn Bjarnason hefði viljað ganga lengra en hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sem var viðskiptaráðherra á þeim tíma.

Það var mjög sérstakt að hlusta á ræðu hv. þm. Björns Bjarnasonar, bæði núna og líka þegar við ræddum þetta við 1. umr., og ég hjó sérstaklega eftir þessu og spurði hæstv. utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson, út í þetta en hann bar þetta allt meira og minna af sér gagnvart Samfylkingunni. Ég hef síðan rætt þetta mál á opinberum vettvangi við hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson og hann sagði að þetta væri ekki rétt. Mér þótti heldur verra að sitja undir því að vera sökuð um að fara með rangt mál þar sem ég taldi að hv. þm. Björn Bjarnason hefði fullyrt þetta í þingsal. Ég vil því gjarnan inna hv. þm. Björn Bjarnason eftir því hvort hann geti verið nákvæmur í orðum sínum varðandi það um hvað þessi ágreiningur snerist og um það hvort ekki sé rétt skilið hjá þeirri sem hér stendur að hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vildi ekki veita víðtækar heimildir á sínum tíma og því stöndum við í þeim sporum sem við stöndum í í dag að þurfa að kalla eftir þessum heimildum í þinginu.

Hvaða rök hafði hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson fyrir sér á sínum tíma? Er þetta rétt? Telur hv. þm. Björn Bjarnason að þessi niðurstaða hafi tafið rannsókn bankahrunsins?