136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:20]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég stend í þeirri meiningu að hv. allsherjarnefnd hafi fengið minnisblöð sem lágu fyrir í ráðuneytunum um þetta mál þannig að það liggur alveg fyrir skjalfest um hvað þessi ágreiningur var. Það er líka ljóst að þetta ákvæði í frumvarpinu sem við erum að fjalla um núna gengur lengra en við vorum að velta fyrir okkur í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma. Það sýnir aðeins, eins og ég sagði í minni ræðu áðan, að menn hafa við meðferð málsins og við nánari athugun á hlutverki hins sérstaka saksóknara áttað sig á því að eðlilegt væri að hann fengi þessar heimildir. Það getur vel verið að það hafi þurft allar þær umræður sem orðið hafa á opinberum vettvangi og annars staðar til að opna augu fleiri en okkar sem vorum að sýsla með þetta mál í dómsmálaráðuneytinu á sínum tíma, opna augu manna fyrir því að eðlilegt væri að veita þessar heimildir.

Ég get ekki sagt annað um þetta en það að þess vegna tók ég þetta fram þegar málið var til 1. umr. og ítreka það hér að ég hef alla tíð verið þeirrar skoðunar að það ætti að veita hinum sérstaka saksóknara heimildir á borð við þær sem nú er verið að fjalla um. Ég hef líka verið eindreginn talsmaður þess allt frá því á fyrstu dögunum eftir bankahrunið að menn ættu að líta á bankaleyndina að því leyti að sumt af henni væri örugglega sögulegt viðfangsefni og ætti ekki að skjóta sér á bak við hana við rannsókn eða umræður um þessi mál. Mér heyrist að það sjónarmið sé líka að ávinna sér meiri stuðning en var í upphafi og menn séu farnir að miðla meiri upplýsingum, ekki aðeins til hins sérstaka saksóknara heldur einnig á opinberum vettvangi, en gert var í upphafi og ég fagna því einnig.