136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:22]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tel að orð hv. þm. Björns Bjarnasonar staðfesti það sem ég hef verið að segja varðandi þessi mál að ágreiningurinn á milli fyrrum stjórnarflokka hafi orðið til þess að heimildirnar eru ekki nógu sterkar og þess vegna stöndum við hér og erum að veita víðtækari heimildir. Þetta er að mínu mati frekar alvarlegt mál af því að núna situr hinn sérstaki saksóknari og kallar eftir endurskoðunarskýrslum bankanna hjá Fjármálaeftirlitinu og fær þær ekki. Hann hefur kallað eftir þeim ítrekað, fjórum til fimm sinnum, það kom fram í máli hans fyrir allsherjarnefnd. Fjármálaeftirlitið hefur ekki svarað þessum beiðnum þannig að núna þarf að fá þessar heimildir gegnum þinglega meðferð til að Fjármálaeftirlitið afhendi loksins þessar skýrslur. Sérstakur saksóknari telur, og það hefur komið fram opinberlega, mikilvægt að fá þessar skýrslur til að átta sig á baksviðinu þegar bankarnir hrundu, hvað átti sér stað þessa daga. Hann telur að hann þurfi að fá heildarmynd af því á meðan manni sýnist að Fjármálaeftirlitið vilji að einhverju leyti grisja úr endurskoðunarskýrslum bankanna einhverjar upplýsingar og afhenda svo sérstökum saksóknara einhverja útgáfu B, eða útgáfu 2, af endurskoðunarskýrslum bankanna. Það er auðvitað ekki eðlilegt, virðulegur forseti.

Það er leitt til þess að vita að fyrrum viðskiptaráðherra hafi komið málum þannig fyrir að sérstakur saksóknari hefur ekki getað hafið almennilega rannsókn á bankahruninu af því að hann fær ekki aðgang að gögnum. Yfirleitt er það þannig að lögreglan fær aðgang að gögnum og er sjálf þess bær að sía úr hvað er mikilvægt að nýta og hvað ekki.