136. löggjafarþing — 111. fundur,  23. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[19:24]
Horfa

Björn Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni. Að sjálfsögðu var það alltaf ætlan okkar sem stóðum að því að leggja drög að þessu embætti og ýta því úr vör að það hefði víðtækar heimildir til að stunda þær rannsóknir sem eru nauðsynlegar til þess að það geti sinnt sínum störfum. Eins og hv. þingmaður hefur vafalaust kynnt sér í allsherjarnefnd — ég á ekki sæti þar og ég veit ekki hvaða umræður fóru þar fram en ég tel mig hafa vitneskju um að m.a. hafi verið lögð fyrir nefndina minnisblöð sem eiga að sýna um hvað þessi ágreiningur snerist sem hv. þingmaður er að tala um og þá ætti nefndin að kalla eftir því og kynna sér hvaða sjónarmið þetta voru.

En nú tel ég að það sé í raun og veru búið að ýta öllum slíkum hindrunum úr vegi með því að þetta frumvarp er að verða að lögum og fallist er á það meginsjónarmið sem ég var með og dóms- og kirkjumálaráðuneytið hefur verið með allan tímann, að þessi ágæti sérstaki saksóknari eigi að hafa rúmar heimildir. Ég hef heldur ekki hitt hann og ekki hlustað á hvað hann sagði fyrir hv. allsherjarnefnd en ef það hefur komið fram í máli hans, eins og hv. þingmaður sagði, að hann hafi ekki fengið endurskoðunarskýrslur og önnur gögn þá sýnir það að hendur hans hafa verið bundnar með ósæmilegum hætti miðað við þær ríku skyldur sem lagðar eru á hann við rannsókn þessara mála.