136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild – álver í Helguvík.

[13:38]
Horfa

Kristinn H. Gunnarsson (U):

Virðulegi forseti. Ég er ekki viss um að það hafi verið mikil þörf á því að ganga á Samfylkinguna og kalla eftir stefnu hennar í málefnum Evrópusambandsins. Það er frekar að maður setji spurningarmerki við áherslur þeirra sem eru að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum, hvaða stefnu þeir ætla að bera fram fyrir flokksmenn sína. Mér finnst að þeir tali meira fyrir aðild og séu jákvæðari gagnvart henni en ætla má að vilji standi til innan flokksins og ég mundi halda að á flokksþinginu um næstu helgi komist menn að því að það er enginn vilji til þess af hálfu flokksmanna Sjálfstæðisflokksins að ganga í Evrópusambandið, hvað þá að hefja aðildarviðræður.

Ég held að menn verði að átta sig á því, virðulegi forseti, að aðild að Evrópusambandinu getur auðvitað verið ávinningur við vissar aðstæður en er líka fórn og hún er sú að menn ákveða að fela öðrum að taka ákvarðanir sem sjálfstæð þjóð gerir að öllu jöfnu sjálf. Við fáum engin töframeðul með inngöngu í Evrópusambandið sem við höfum ekki yfir að ráða í dag. Við fáum aðeins það eitt, mat okkar sjálfra að aðrir séu færari um að leysa úr erfiðum efnahagsvandamálum en okkar eigið fólk. Mér finnst það vera slæm niðurstaða og er ekki tilbúinn til að skipa mér í hóp þeirra sem vilja halda því fram að við þurfum að sækja mannvit til erlendra ríkja til að stjórna okkar í efnahagsmálum. Ég vil halda því fram að þrátt fyrir að ýmislegt hafi gengið á í sögu lýðveldisins hafi okkur í heildina tekið miðað það vel áfram að það sé vandfundin sú þjóð sem hafi gert betur.