136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:46]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég beini spurningu til hv. formanns heilbrigðisnefndar, og af ástæðu. Þetta er afskaplega stórt mál og þau gerast ekki stærri. Eins og menn vita samþykktum við fjárlög hér upp á að setja 7.000 millj. kr. minna í heilbrigðismálin en áætlað var.

Við þekkjum að síðasta ríkisstjórn ákvað að fara út í sameiningar og skipulagsbreytingar sem eru, eins og allir vita, erfið mál en það var gert til þess, virðulegi forseti, að vernda heilbrigðisstarfsfólkið og þjónustuna. Svo kemur ný ríkisstjórn og nýr heilbrigðisráðherra sem hefur allan rétt á að breyta því sem ákveðið var.

Það sem við höfum farið fram á, en ekki hefur verið svarað þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir þar um, er að fá að vita hvað á að gera. 20. janúar kom hæstv. heilbrigðisráðherra á fund nefndarinnar og hafði engin svör, virðulegi forseti, engin svör. Síðan erum við á hverjum einasta nefndarfundi búin að biðja um upplýsingar um það hvernig framkvæmdir fjárlaga gangi og hvað eigi að gera. Ég hef séð í fjölmiðlum að hópar voru settir af stað sem áttu m.a. að skila af sér mjög stórum niðurstöðum 12. mars. Nú er 24. mars. Það að menn fá ekki svör við þessu er afskaplega slæmar fréttir fyrir heilbrigðisstarfsfólk og afskaplega slæmar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.

Virðulegi forseti. Það er ekki boðlegt að fund eftir fund vilji meiri hlutinn ekki ræða þetta. Hann vill ekki ræða þetta grundvallarmál. (Gripið fram í: Þú ert svo mikill …) Þess vegna fer ég fram á hér, í þingsal, að við fáum upplýsingarnar sem eru nauðsynlegar en mér sýnist sem menn ætli að ýta vandanum á undan sér sem eru skelfilegar fréttir fyrir heilbrigðisstarfsfólk og skelfilegar fréttir fyrir þá sem þurfa á þjónustunni að halda.