136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu.

[13:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það hlýtur að vera svolítið önugt hlutskipti fyrir Vinstri græna að um leið og þeir samþykkja ályktanir sínar á flokksþingi taki við einhvers konar pólitískir fréttaskýrendur, þingmenn Samfylkingarinnar, (Gripið fram í.) sem útskýra fyrir þjóðinni hvað Vinstri grænir hafi í raun og veru meint. Þegar þeir samþykktu t.d. að þeir væru á móti Evrópusambandinu komu þingmenn Samfylkingarinnar og sögðu: Þetta þýðir að þeir eru að opna leiðina inn í Evrópusambandið. Þetta er einhvers konar kollhnísufréttaskýring sem er engu lagi lík og hlýtur að slá öll met.

Þá liggur fyrir að formaður þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hefur talað mjög afdráttarlaust um að þeir séu á móti því að fara inn í Evrópusambandið gagnstætt því sem fréttaskýrendur í Samfylkingunni halda fram. Svo var önnur samþykkt gerð á flokksþingi Vinstri grænna og hún var sú að núna ætti að fara í vinstri stjórn eftir kosningar og það væri stjórn með Samfylkingunni. Það liggur fyrir afdráttarlaus vilji forustumanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í þeim efnum en þá vaknar einföld spurning: Mun VG gera Evrópumálin að úrslitaatriði? Er þetta eitthvert umsemjanlegt mál, eitthvað sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð ætlar sér síðan eftir kosningar að semja um og komast að einhverri annarri niðurstöðu svo þeir geti þjónað fréttaskýrendunum í Samfylkingunni?

Vinstri hreyfingin – grænt framboð verður eftir þessa umræðu að fara að tala miklu skýrar. Þeir verða að segja okkur hvort þetta verði gert að úrslitaatriði, hvort þetta sé eitthvert svona mál sem menn geti samið um í einhverju bixi eftir kosningar. Eða ætlar Vinstri hreyfingin – grænt framboð að standa í lappirnar? Þora þeir, geta þeir, vilja þeir? Er viljinn til að sitja á ráðherrastólunum með Samfylkingunni, mesta Evrópustefnuflokki á Íslandi, e.t.v. svo sterkur að þeir ætli að semja um þetta mál? Er þetta eitthvert skítabixmál sem þeir geta bara (Forseti hringir.) samið um til þess að sitja sem ráðherrar áfram? (Gripið fram í.)