136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

ESB-aðild -- álver í Helguvík -- sparnaður í heilbrigðiskerfinu -- verðhjöðnun.

[14:00]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Herra forseti. Ég ætla að tala um allt annað. Þann 5. mars hélt ég ræðu og var þar fullbjartsýnn og sagði að verðhjöðnun mundi verða um næstu mánaðamót sem varð tilefni til þess að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir átaldi mig og sagði, með leyfi herra forseta:

„Ég veit að það er ljótt að fara að draga niður þann jákvæða tón sem kom fram hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar“ — sem ég var reyndar ekki — „en raunveruleikinn er bara sá að þetta er allt saman mjög þungt hjá okkur, Íslendingum, og verður eflaust áfram.“

Nú hefur orðið verðhjöðnun. Reyndar bárust mjög slæm tíðindi síðustu helgi varðandi sparisjóðina en við verðum að halda uppi hinum jákvæðu tíðindum sem koma fram. Verðhjöðnun þýðir að verðtryggðar skuldir heimilanna lækka. Verðtryggðar greiðslur af lánum lækka og raunvextir stýrivaxta Seðlabankans verða óheyrilega háir, þeir eru farnir að nálgast 30% sem þýðir það í mínum huga að Seðlabankinn mun lækka stýrivexti umtalsvert á næsta ákvörðunardegi. Hann mun væntanlega lækka þá niður í 8–10%. Ég mundi ráðleggja mönnum það til þess að raunvextirnir verði ekki óbærilegir.

Þetta eru jákvæð tíðindi, herra forseti. Ég held að þingið verði líka að koma með jákvæðar fréttir út í þjóðfélagið svona til viðbótar við sólskinið sem skín úti — þetta er ekki allt saman einn táradalur. Ég vildi gjarnan minna á það aftur að verðhjöðnun frá Hagstofunni, lækkun á verðtryggingu, er einmitt það sem skuldug heimili í landinu þurftu, smáglætu um það að skuldirnar hækki ekki endalaust, séu loksins farnar að lækka eilítið.