136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

afgreiðsla þingmála o.fl.

[14:20]
Horfa

Ragnheiður Ríkharðsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég geri athugasemd við þá fundarstjórn forseta að þegar hv. þm. Álfheiður Ingadóttir leyfði sér að segja í þingsal til þingmanna Sjálfstæðisflokksins að þeir nenntu ekki að vinna vinnuna sína skyldi hæstv. forseti ekki lemja í bjöllu og áminna þingmanninn fyrir að ganga þannig á heiður þingmanna Sjálfstæðisflokksins.

Hæstv. forseti. Mér er verulega brugðið við það að þingmaður Vinstri grænna, Álfheiður Ingadóttir, væni mig um það að ég vinni ekki vinnuna mína. Ég tel það hámark dónaskapar og vanvirðu af hálfu hv. þingmanns og ég krefst þess að hún biðji mig í það minnsta afsökunar á því vegna þess að hér hef ég verið að vinna vinnuna mína frá því að ég var kjörin á þing þann 12. maí 2007. Ég frábið mér svona málflutning, hæstv. forseti, og ég hefði kosið að forseti hefði barið í bjöllu og áminnt þingmanninn.