136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

afgreiðsla þingmála o.fl.

[14:21]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Hér hefur það gerst að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafa hvatt til þess að reynt yrði að forgangsraða málum þannig að áhersla yrði lögð á að reyna að afgreiða þau mál sem snúa að hag heimilanna, atvinnulífinu sjálfu og efnahagsmálunum í heild. Það er það sem við höfum farið fram á og það er þá varla stórmannlegt að bregðast við eins og stjórnarliðarnir hafa gert í ræðum sínum áðan, að segja að það bendi til þess að þingmenn Sjálfstæðisflokksins nenni ekki að vinna. Við hvetjum þvert á móti til þess að við reynum að snúa saman bökum um að ljúka þeim málum sem brýnust eru. En þá er því mætt með þvílíkum hroka og mannalátum að það er varla hægt að rifja upp nokkurt dæmi álíka þessu.

Ríkisstjórnin getur ekki mannað sig upp í að forgangsraða málum, m.a. vegna þess að það er ágreiningur á milli stjórnarflokkanna sem m.a. veldur því líka að sum brýn mál eru hreinlega á vergangi í nefndum þingsins vegna þess að ríkisstjórnarflokkarnir geta ekki komið sér saman. Það er vandamálið sem við er að glíma. Við erum tilbúin til að vinna að (Forseti hringir.) þessum málum en þá þýðir ekki að setja hér á langa fundi um mál sem varða ekki (Forseti hringir.) þau brýnustu mál sem við erum hér að reyna að fjalla um.