136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[14:41]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi til mín spurningu sem varðar fjármál embættisins. Í fjárlögum ársins 2009 er gert ráð fyrir 50 millj. kr. fjárveitingu til embættisins sem byggist á þeim forsendum að þar séu þrír, fjórir starfsmenn í byrjun en síðan verði í lok ársins níu starfsmenn. 76 milljónir að mig minnir á árs grundvelli.

Farið hefur fram endurskoðun á rekstraráætlun embættisins sem ég kynnti í ríkisstjórn í morgun sem miðar að því að auka fjölda starfsmanna embættisins. Áætlunin gengur út á það að þar séu 16 fastir starfsmenn auk erlendra ráðgjafa. Var mér falið ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra að ganga frá málinu til ákvörðunar í ríkisstjórn á föstudag. Það er ljóst að kostnaður við vinnu erlendra sérfræðinga er enn þá nokkuð óljós og þarf að athuga hann betur en það liggur fyrir að ef embættið hefði á að skipa 16 starfsmönnum kostaði það á ársgrundvelli u.þ.b. 170 milljónir. Hér er auðvitað um verulega aukningu að ræða en ég held að það sé alveg nauðsynlegt að búa þannig að embætti sérstaks saksóknara að hann geti sinnt rannsókn brota í tengslum við bankahrunið af fullum krafti.