136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[14:43]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. dómsmálaráðherra fyrir þessi svör. Ég vek athygli hv. þingmanna á því að hér er um talsverð tíðindi að ræða. Hér er bæði gert ráð fyrir verulegri aukningu fjármuna til embættisins og um leið er gert ráð fyrir að starfsmannafjöldi verði aukinn umtalsvert. Ég hef ekki forsendur til að draga í efa eða leggja mat á þær forsendur um upphæðir sem lagðar eru til grundvallar í þessu máli en mér finnst hins vegar full ástæða til að fagna því að þessi skref hafa verið stigin, bæði hvað varðar eflingu embættisins og fjárheimildir, sem ég þykist vita að séu ákveðnar eða lagðar til á grunni góðra upplýsinga. Ég vil bara lýsa þeirri skoðun minni að ég tel afar mikilvægt að við þingmenn stöndum við bakið á þessu verkefni, á þessu embætti og tryggjum því það svigrúm og afl sem það þarf til að ljúka sínum mikilvægu verkum.