136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[14:44]
Horfa

Sigurður Kári Kristjánsson (S):

Frú forseti.

(Forseti (ÞBack): Forseti vill beina athygli hv. þingmanns að því að klukkan í ræðupúltinu er biluð eins og er þannig að þessi niðurtalning á tveimur mínútum á ekki við ræðu hv. þingmanns og hann getur verið rólegur í ræðustól.)

Þýðir það, frú forseti, að það sé ótakmarkaður ræðutími fyrir þingmanninn?

(Forseti (ÞBack): Það vill nú ekki svo vel til fyrir hv. þingmann. Kannski ekki eins vel fyrir þingið. En klukkunni verður komið í lag.)

Þakka þér fyrir það frú forseti. Ef ég hefði ótakmarkaðan tíma hefði ég óskað eftir því að fá að sækja fleiri gögn til þess að styðjast við í ræðu minni sem ég ætla að flytja um þetta mál, frumvarp til laga um breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara, sem er auðvitað breyting á lögum sem við samþykktum hér þann 11. desember 2008.

Fullseint, sögðu margir og þar á meðal við sjálfstæðismenn. Eins og kunnugt er lét fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra semja það frumvarp og flutti og mælti fyrir því hér í þinginu eftir að hafa með nokkrum harmkvælum náð að fá það samþykkt í þingflokki Samfylkingarinnar sem einhverra hluta vegna á þeim tíma stóð á móti þessu frumvarpi og fann því ýmislegt til foráttu þrátt fyrir að vera í stjórnarsamstarfi með Sjálfstæðisflokknum. Það var auðvitað dálítið sérstakt á þeim tíma eftir bankahrunið þegar menn vildu finna sökudólga sem eðlilegt er, meinta sökudólga sem haldið var fram að bæru ábyrgð á bankahruninu. En á endanum varð það frumvarp að lögum.

Nú ræðum við breytingu á lögum um embætti sérstaks saksóknara sem hefur það fyrst og fremst að markmiði að auka heimildir embættisins til þess að kalla eftir upplýsingum og gögnum, að minnsta kosti að gera þær heimildir skýrar og ótvíræðar.

Það er ekkert launungarmál að við sjálfstæðismenn, þingflokkurinn allur og fulltrúar flokksins í hv. allsherjarnefnd, styðjum það frumvarp. Við styðjum þá viðleitni sem fram kemur í frumvarpinu, að styrkja embætti sérstaks saksóknara þannig að því verði enn frekar gert kleift að upplýsa, rannsaka og eftir atvikum gefa út ákærur í málum sem falla undir lög nr. 135/2008, um embætti sérstaks saksóknara. Enda er það kannski meginkjarninn í málflutningi flokksins að nauðsynlegt sé að rannsaka aðdraganda og orsakir bankahrunsins og fela þar til bærum yfirvöldum þau tæki sem nauðsynleg eru til þess að sú rannsókn geti farið fram.

Það er auðvitað ekkert bundið við þetta mál. Við í Sjálfstæðisflokknum höfum, bæði í stjórn og stjórnarandstöðu, lagt töluverða áherslu á að heimila og veita lögreglunni og yfirvöldum þau tæki sem nauðsynleg eru til þess að rannsaka mál og til að mynda berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi. Það var viðleitni í þá átt og fyrrverandi hæstv. dómsmálaráðherra, Björn Bjarnason, hefur flutt frumvörp varðandi t.d. greiningardeild ríkislögreglustjóra. Hann hefur flutt frumvarp um breytingar á lögum til þess að berjast gegn mansali og skipulagðri glæpastarfsemi. Í hvert einasta skipti sem slík mál hafa verið flutt af hálfu Sjálfstæðisflokksins hafa vinstri menn hér í þingsalnum brugðist illa við öllum slíkum tilburðum. Það er dálítið sérstakt þegar menn gefa því annars vegar undir fótinn að eðlilegt sé að berjast gegn skipulagðri glæpastarfsemi en vilja síðan ekki veita yfirvöldum þær heimildir sem nauðsynlegar eru til að gera það.

En það er auðvitað annað mál. Í þessu frumvarpi erum við ekki beint að fjalla um skipulega glæpastarfsemi heldur hugsanleg lögbrot sem urðu til í aðdraganda bankahrunsins.

Eins og fram kemur í frumvarpinu er lagt til í fyrsta lagi að afmarkað verði með skýrum hætti í lögum þær heimildir sem hinn sérstaki saksóknari hefur til öflunar upplýsinga og gagna gagnvart þeim stofnunum og aðilum sem vísað er til í frumvarpinu, þ.e. Fjármálaeftirlitinu, Samkeppniseftirlitinu, skattrannsóknarstjóra ríkisins og öðrum eftirlits- og réttarvörslustofnunum, skilanefndum og öðrum sem vinna að greiðslustöðvun, nauðasamningi eða gjaldþrotaskiptum fjármálafyrirtækja. Undir það tek ég, þetta eru breytingar sem að mínu mati eru nauðsynlegar.

Það sama má segja um þá tillögu sem fram kemur í frumvarpinu, að leggja til rýmri heimildir embættisins til upplýsinga og gagnaöflunar og þar undir falli skilanefndir gömlu bankanna og aðrir sem vinna að gjaldþrotaskiptum, greiðslustöðvun eða nauðungarsamningi fjármálafyrirtækja. Þannig eru tekin af öll tvímæli um þá skyldu nýju bankanna þriggja, sem stofnaðir voru um hluta af rekstri Glitnis hf., Kaupþings hf. og Landsbankans hf., til að afhenda hinum sérstaka saksóknara gögn.

Það er nauðsynlegt í ljósi þess að gera má ráð fyrir því að þeir aðilar sem ég hef nefnt kunni að hafa undir höndum mikilvægar upplýsingar eða gögn sem hinn sérstaki saksóknari telur að geti nýst embættinu í starfi sínu. Það segir sig auðvitað sjálft að til þess að þau úrræði sem við fjöllum um hér um þjóni tilgangi sínum og til þess að hinn sérstaki saksóknari geti sinnt störfum sínum þarf hann að hafa fullnægjandi heimildir og fullnægjandi aðgang að mikilvægum upplýsingum og gögnum svo að hægt verði að leiða sannleikann um það hvers vegna fór sem fór, fram í dagsljósið. Það eru auðvitað mikilvægar heimildir sem hér eru færðar fram og skýra umfram það sem gert var í lögunum eins og þau voru þegar þau voru samþykkt þann 11. desember 2008.

Það er krafa um það í þjóðfélaginu að rannsókn þessara mála gangi hratt og vel fyrir sig og að helstu álitamál því tengd verði leidd til lykta. Við sjálfstæðismenn höfum alveg frá upphafi verið reiðubúnir til þess að leggja okkar lóð á vogarskálarnar til þess að slík rannsókn geti gengið eins snurðulaust fyrir sig og mögulegt er.

Við umfjöllun um málið í hv. allsherjarnefnd komu fram ábendingar um að gera þyrfti breytingar á því lagaumhverfi sem embætti sérstaks saksóknara starfar í. Þessar breytingartillögur vörðuðu starfsmannahald og í framhaldi af því lagði nefndin til að frumvarpið yrði samþykkt með breytingu. Hún felur í sér að vikið yrði frá skyldu laga nr. 7/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, til þess að auglýsa störf hjá embætti sérstaks saksóknara svo að ekki þurfi að fara í þungt ferli til þess að ráða starfsmenn sem nú eru einkum hjá embætti efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra og auðgunarbrotadeildar lögreglustjóraembættisins á höfuðborgarsvæðinu.

Sérstakur saksóknari er tímabundið embætti og því eru menn ekki ráðnir þangað til langframa. Unnt þarf að vera að kalla menn til verkefna án mikillar fyrirhafnar og tíma til að fara í gegnum umsagnarferlið og ákvæðið tekur mið af heimild sem rannsóknarnefnd þingsins hefur til ráðningar fólks. Hins vegar er ekki ætlunin með þessum breytingum að víkja frá málefnalegum sjónarmiðum og gagnsæi sem eftir sem áður þarf að gæta við ráðningu starfsmanna.

Sú breytingartillaga sem lögð er til og þingmenn allra stjórnmálaflokka á Alþingi, utan Frjálslynda flokksins sem ekki á fulltrúa í nefndinni, standa að, felur í sér ákveðin tímamót vegna þess að hér er verið að leggja til undanþágu frá lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Verið er að sveigja af þeirri leið sem mörkuð hefur verið varðandi ráðningarmál opinberra starfsmanna og veita afslátt af þeim meginreglum sem fram koma í lögunum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. En það er afsláttur sem til að mynda hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fram til þessa aldrei verið reiðubúnir til að taka til umræðu.

Nú veit ég ekki hvort þessi breyting felur það í sér að hv. þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs verði til viðræðu um að gera einhverjar breytingar á opinberu vinnumarkaðslöggjöfinni og séu reiðubúnir til þess að liðka fyrir á þeim hluta vinnumarkaðarins. Vonandi er það nú þannig enda hefur það staðið rekstri ríkisins töluvert fyrir þrifum hversu erfitt er að gera breytingar í starfsmannahaldi þar, án þess að ég nefni sérstök dæmi. En þetta er lítið skref í þá átt af hálfu hv. þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að gera opinbera vinnumarkaðinn sveigjanlegri. Að minnsta kosti kýs ég að líta svo á og tel á að þau sjónarmið búi þar að baki þangað til annað kemur í ljós. (Gripið fram í.)

Frú forseti. Ég tók eftir því að hæstv. dómsmálaráðherra hélt blaðamannafund fyrr í dag. Tilkynnt var að gerðar væru breytingar á starfsmannahaldi hins sérstaka saksóknara á þá leið að starfsmönnum hjá embættinu yrði fjölgað. Ef ég man rétt og get endursagt fréttina rétt kemur fram að starfsmenn embættisins verði 16 talsins en að auki hafi embættið heimildir til þess að ráða til sín erlenda sérfræðinga. Ef ég tók rétt eftir kom fram í andsvari hæstv. dómsmálaráðherra áðan að starfsmenn embættisins kynnu að verða allt að 20 talsins.

Það er út af fyrir sig ánægjuefni og ég fagna því sérstaklega að hæstv. dómsmálaráðherra sé reiðubúin til þess að leggja meira í embætti sérstaks saksóknara en ráð var fyrir gert í upphafi. Við höfum fengið ábendingar um að það þyrfti fjölmennara og öflugra starfslið hjá embættinu til þess að takast á við það risavaxna verkefni sem hrun fjármálakerfisins og rannsókn á því er. Og hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú stigið það skref.

Ég minnist þess t.d. að hin fræga kona, Eva Joly, sem mun vera frambjóðandi vinstri grænna til Evrópuþingsins, er það ekki, hv. þm. Álfheiður Ingadóttir? Hún hefur lýst því yfir að embætti sérstaks saksóknara sé, eins og upphaflega var gert ráð fyrir, hálfgert grín. Það þyrfti meiri mannafla til að rannsaka þau mál sem embættinu er ætlað að rannsaka og hæstv. dómsmálaráðherra hefur nú brugðist við því.

Það kom líka fram í andsvari hæstv. dómsmálaráðherra að upphaflega hefðu fjárframlög til þessa embættis verið áætluð um 50 millj. kr. Ég er, eins og hv. þm. Birgir Ármannsson sem talaði á undan mér, auðvitað talsmaður þess að við Íslendingar skerum niður í ríkisrekstri og verðum að gera það. Þegar ríkissjóður er rekinn með 150 milljarða kr. halla er augljóst mál að menn geta ekki leyft sér hvað sem er og einhvers staðar þarf að skera niður. En ég er hins vegar þeirrar skoðunar þegar kemur að löggæslumálunum og réttarvörslukerfinu á Íslandi að það sé sá málaflokkur sem síst má við niðurskurði. Það þarf að halda hér uppi lögum og rétti og til þess þarf auðvitað að kosta töluverðum fjármagni.

Þess vegna velti ég því fyrir mér hvort hæstv. ráðherra, og eftir atvikum hv. þingmenn stjórnarliðsins, geti verið sammála mér um að það sé mun mikilvægara að veita fjármuni til hins sérstaka saksóknara til þess að efla það embætti jafnvel enn frekar og styrkja. Og hugsanlega má fella undir þann hatt þá rannsóknarnefnd sem þingið skipaði að veita þessum aðilum aukna fjármuni til sinna starfa frekar en að verja allt að 2.000 millj. til þess að koma á stjórnlagaþingi á Íslandi. Er nú ekki brýnna verkefni fyrir samfélag okkar að standa þannig að málum að hinn sérstaki saksóknari geti svo vel sé sinnt embætti sínu eða hlutverki og rannsakað aðdraganda og orsakir bankahrunsins? Er það ekki mikilvægara en að stofna nýtt þing við hliðina á því sem fyrir er?

Það hefði ég talið, ef menn vilja góða forgangsröðun í kerfinu öllu. Ég hefði talið að skynsamlegra væri að nota þá fjármuni sem Framsóknarflokkurinn og stjórnarflokkarnir vilja nota, 2.000 millj. kr., til að stofna til stjórnlagaþings, til verkefna eins og þeirra sem sérstaka saksóknaranum er ætlað að sinna.

Þegar menn bera saman annars vegar þann kostnað sem ætlaður er til starfsemi embættis sérstaks ríkissaksóknara og kostnaðinn vegna stjórnlagaþingsins eins og fjárlagaskrifstofa fjármálaráðuneytisins metur hann, er sérstaka saksóknaranum ætlaðar 50 millj. kr. en stjórnlagaþinginu 2.000 millj. kr.

Að mínu mati er þeim fjármunum betur komið — eða að minnsta kosti hluta þeirra — hjá sérstaka saksóknaranum og eftir atvikum hjá rannsóknarnefndinni. Þetta er eitt af brýnustu málunum sem þarf að sinna í samfélaginu. Það er mikil krafa uppi um að þau mál sem sérstaki saksóknarinn og rannsóknarnefndin eiga að sinna verði upplýst og við verðum einfaldlega að gefa þessum embættum í stjórnkerfi okkar möguleika á því að sinna verkefnum sínum með sómasamlegum hætti og það munum við sjálfstæðismenn styðja. En við eigum að setja ýmis önnur gæluverkefni til hliðar sem ekki skipta jafnmiklu máli og þetta verkefni. Það starf sem embætti sérstaks saksóknara vinnur og sú rannsóknarnefnd sem stofnað var til er grunnurinn að því að hægt sé að endurheimta það traust sem glataðist í tengslum við fall og hrun fjármálakerfisins. Það viljum við öll endurheimta.

Varaformaður Sjálfstæðisflokksins, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, hefur áður varpað þessum hugmyndum fram opinberlega sem ég reifa hér. Ég hlýt að ætla að menn taki slíkar hugmyndir til alvarlegrar skoðunar, sérstaklega þegar staðan í fjármálum ríkisins er með þeim hætti að menn verða að forgangsraða og geta ekki leyft sér hvað sem er. Þeir þurfa því að setja sum mál í meiri forgang en önnur.

En að öðru leyti, frú forseti, lýsi ég mig fylgjandi þessu máli og sömuleiðis þeirri breytingartillögu sem hv. allsherjarnefnd leggur til á frumvarpinu. Ég mun beita mér fyrir því að það verði samþykkt sem lög frá Alþingi eins hratt og örugglega og mögulegt er.