136. löggjafarþing — 112. fundur,  24. mars 2009.

embætti sérstaks saksóknara.

393. mál
[15:14]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég kom inn á í andsvari áðan kynnti ég breytta rekstraráætlun sérstaks saksóknara fyrir ríkisstjórn í morgun. Endanleg ákvörðun verður væntanlega ekki tekin fyrr en á föstudag en mér var falið ásamt forsætisráðherra og fjármálaráðherra að vinna áfram að málinu. Það er alveg ljóst að ef af verður er um að ræða töluverð útgjöld og í því samhengi þarf að skoða hvort finna megi einhverja samlegðarþætti, að skoða hvort hinir erlendu sérfræðingar geti nýst bæði Fjármálaeftirliti og hjá hinum sérstaka saksóknara. Það þarf að athuga hvernig við getum notað peningana á sem skynsamlegastan hátt.

Í því samhengi vil ég segja þá skoðun mína að ég tel að það sé mjög brýnt að rannsóknarnefnd þingsins og hinn sérstaki saksóknari skiptist á upplýsingum. Rannsóknarnefndin láti saksóknaranum í té upplýsingar sem gagnast geta rannsókn hans eftir því sem henni er unnt en það er alveg ljóst að verksvið þessara tveggja stofnana er mismunandi.

Varðandi það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns að forgangsraða þurfi í ríkisrekstri vil ég kynna að ég hef ákveðið að setja á fót vinnuhópa í dóms- og kirkjumálaráðuneyti til að fara yfir hin ýmsu svið í dóms- og kirkjumálaráðuneyti til að athuga hvort hægt sé að finna einhverja samlegðarþætti, annaðhvort í stofnunum eða í verkefnum þannig að unnt sé að nýta fjármagnið sem best.